- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fólk úr félagi eldri borgara á Fljótsdalshéraði hafa undanfarið snyrt svæðið í kringum útileikhúsið í Selskógi. Nokkrar myndir frá framkvæmdinni má sjá á Facebooksíðu Fljótsdalshéraðs.
Svæðið við útileikhúsið hefur verið í niðurníðslu undanfarin ár en Lionsklúbburinn Múli byggði aðstöðuna fyrir leikhúsið sumarið 1994. Þá var smíðaður pallur fyrir svið og bekkir fyrir áhorfendur eins og segir í grein eftir Vigfús Ingvar Ingvarsson í Lionsblaðinu nú í vor.
Gyða Vigfúsdóttir, ein úr hópnum, segir að það hafi verið Philip Vogler sem átti hugmyndina að útileikhúsinu og var forsprakki fyrir mörgum uppsetningum í Selskógi árin á eftir. Þar hefur einnig verið haldin útimessa flest sumur síðan 1994 og var sú síðasta á sunnudaginn var.
Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá nokkra af hinum vösku sjálfboðaliðum og af þeim eru tveir sem tóku þátt í að byggja upp aðstöðuna í upphafi, þeir Eiríkur Þorbjarnarson og Þórhallur Eyjólfsson. Aðrir á myndinni eru Gyða Vigfúsdóttir, Erla Salómonsdóttir, Guðný Jónsdóttir og Hjálmar Jóelsson. Alls hafa þrettán sjálfboðaliðar tekið þátt í verkefninu.
Gyða segir að næst á dagskrá hjá hópunum sé að grisja brotnu og dauðu trén og klára stíga að salernunum, þannig að það séu næg verkefni fyrir alla sem vilja koma að þessu verkefni og öðrum. Og orðrétt sagði hún: Aldur menntun og fyrri störf ekki fyrirstaða og þetta er ekki bundið við neinn sérstakan félagsskap heldur verkefni okkar allra.