Nýtt sveitarfélag stofnað og kosið milli 6 heita

Örnefnanefnd hefur veitt umsagnir um 17 tillögur að heitum á sveitarfélagið.

Nafnanefnd hefur lagt til við Undirbúningsstjórn sameiningarinnar að íbúar fái tækifæri til að greiða atkvæði um þau tvö heiti sem Örnefnanefnd mælir með, auk heita sem nefndin leggst ekki gegn. Austurbyggð hefur verið notað áður um nágrannasveitarfélag og kemur því ekki til álita að mati nafnanefndar.

  • Austurþing
  • Austurþinghá
  • Múlabyggð
  • Múlaþing
  • Múlaþinghá

Undirbúningsstjórn samþykkti tillögur Nafnanefndar, en ákvað að íbúum verði jafnframt boðið upp á að velja heitið Drekabyggð, þrátt fyrir að Örnefnanefnd leggist gegn heitinu. Heitið samræmist íslenskri málhefð og málvenju eins og áskilið er í sveitarstjórnarlögum.

Íbúar kjósa því á milli sex mögulegra heita á nýtt sveitarfélag samhliða sveitarstjórnarkosningum 18. apríl næstkomandi.

  • Austurþing
  • Austurþinghá
  • Drekabyggð
  • Múlabyggð
  • Múlaþing
  • Múlaþinghá

Kosning um heiti á sveitarfélag er leiðbeinandi fyrir nýja sveitarstjórn, sem tekur ákvörðun um heitið. Ekki er hægt að kjósa um heiti utan kjörfundar þar sem ekki erum kosningar að ræða í skilningi laga um kosningar.

Nafnanefndin leggur til að kosningaaldur í kosningu um heiti sveitarfélagsins verði 16 ára, en kjörskrá að öðru leyti í samræmi við lög um kosningar til sveitarstjórna. Þá leggur nefndin til að kjósendum verði boðið upp á raðval með því að velja fyrsta og annan valkost. Undirbúningsstjórn samþykkti þær tillögur Nafnanefndar.

Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið hefur staðfest Samþykkt um stjórn sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar nr.190/2020 og hefur hún verið birt á vef Stjórnartíðinda. Þá hefur fyrirtækjaskrá Skattsins gefið út kennitölu sveitarfélagsins, sem er 660220-1350. Sveitarfélagið er því formlega orðið til, en tekur til starfa eftir sveitarstjórnarkosningar 18. apríl næstkomandi og fær í kjölfarið nafn.

Í samþykktum um stjórn og fundarsköp er fjallað um stjórn sveitarfélagsins, verkefni, stjórnskipulag og fleiri atriði sem áhugavert er fyrir íbúa að kynna sér. Samþykktin gildir í þrjá mánuði eftir sveitarstjórnarkosningar, en á þeim tíma skal sveitarstjórn ákveða hvort hún gildir óbreytt áfram eða gera breytingar.