Nýsköpunardagur hjá skólum á Fljótsdalshéraði

Þriðjudaginn 30. nóvember verður uppskeruhátíð nýsköpunarstarfs í grunnskólum Fljótsdalshéraðs, en þá verður haldinn sérstakur Nýsköpunardagur. Frá því síðasta vetur hefur verið unnið ötult starf í nýsköpun í öllum grunnskólum sveitarfélagsins og ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt litið dagsins ljós. Í tilefni Nýsköpunardagsins verður sett upp sýning í Sláturhúsinu á Egilsstöðum, á nýsköpunarstarfi í skólunum. Sýningin verður formlega opnuð kl. 16.00 og er opin til kl. 18.00. Öllum Héraðsbúum og velunnurum er boðið að koma og upplifa frumkvæði og hugmyndaauðgi nemenda skólanna.

Nemendur í grunnskólum á Fljótsdalshéraði náðu nýverið góðum árangri í Nýsköpunarkeppni grunnskóla. Brúarásskóli hlaut viðurkenningu fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í Nýsköpunarkeppninni og fyrir störf sín á sviði nýsköpunarmenntar og nemendur úr Egilsstaðaskóla unnu til verðlauna í sömu keppni.