Nýr verkefnastjóri sveitarstjórnarmála

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur, í samráði við framkvæmdastjóra Austurbrúar, falið Björgu Björnsdóttur verkefnastjórn málefna sveitarstjórnarstigsins. Hún tók til starfa 1. nóvember.

Samkvæmt nýju skipuriti Austurbrúar, fer starfsmaður stofnunarinnar með málefni sveitarstjórnarstigsins. Stjórn SSA hefur, í samráði við Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, falið Björgu Björnsdóttur þetta hlutverk og tók hún til starfa 1. nóvember 2014. Verkefnastjóri málefna sveitarstjórnarstigsins ber ábyrgð á rekstri SSA og þeim verkefnum sem teljast til umsýslu sambandsins, skv. þjónustusamningi milli Austurbrúar og SSA. Hann er auk þess hluti af stjórnendateymi Austurbrúar.

Þjónustusamningur SSA og Austurbrúar tryggir stjórn SSA m.a. aðkomu að ráðningu og fullt boðvald yfir þeim starfsmanni sem sér um daglegan rekstur SSA auk þess sem þar eru tíunduð þau verkefni sem falla undir starfsvið verkefnastjórans.

Björg Björnsdóttir hefur undanfarið ár sinnt starfi verkefnastjóra á nýsköpunar- og þróunarsviði Austurbrúar. Hún hefur víðtæka reynslu að baki; var meðal annars verkefnastjóri samstarfsverkefna Háskóla Íslands og kynningarstjóri Þjóðleikhússins. Björg er búsett á Egilsstöðum. (Fréttatilkynning frá SSA).