Nýr safnstjóri á Minjasafni Austurlands

Doktor Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur tók við stöðu safnsstjóra Minjasafns Austurlands í septemberbyrjun. Fyrsta verkefni hennar verður að endurskoða hlutverk og stefnu safnsins með tilliti til breyttra safnalaga.

Unnur kemur frá  Þjóðskjalasafni Íslands þar sem hún unnið frá árinu 2004. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og sama ár kom doktorsritgerð hennar, Þar sem fossarnir falla, út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi. Unnur hefur birt fjölda greina um ýmis svið sagnfræði og haldið fjölda fyrirlestra hér heima og erlendis. Þá sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Það kemur alltaf nýr dagur, í vor.

Aðrar fréttir af Minjasafninu eru þær að vegna þrenginga í rekstrinum hefur  staða safnkennara verið lögð af. Undanfarin ár hefur Michelle Lynn Mielnik sinnt safnfræðslu á Minjasafninu við góðan orðstír enda sinnti hún starfi sínu af hugmyndaauðgi og útsjónarsemi. Michelle gegndi auk þess sem hluta af starfi sínu stöðu setts safnstjóra undanfarna mánuði.

Á vefsíðu safnsins er Michelle þökkuð vel unnin störf og sagt að vonir séu  bundnar við það að unnt verði að taka safnfræðsluna aftur upp þegar úr rætist í fjárhagsstöðu safnsins.