Nýr framkvæmdastjóri Vísindagarðsins ehf.

Stjórn Vísindagarðsins ehf á Egilsstöðum hefur ráðið Pétur Bjarnason í stöðu framkvæmdastjóra. Hann hóf störf 1. janúar og tekur við af Ívari Jónssyni sem verið hefur framkvæmdastjóri Vísindagarðsins frá 15. júní 2007.

Pétur Bjarnason er 57 ára sjávarútvegsfræðingur með víðtæka reynslu af samstarfi fyrirtækja svo og samstarfi háskóla og atvinnulífs.  Hann starfaði lengi sem framkvæmdastjóri Fiskifélags Íslands og var einnig framkvæmdastjóri Frumkvöðlaseturs Norðurlands. Þá hefur Pétur einnig verið virkur í fjölbreytilegu félagsstarfi.

Vísindagarðurinn ehf er samnefnari margra stofnana á Austurlandi sem hyggjast smám saman auka samstarf sitt. Hluti þessa samstarfs felst í  sameiginlegu húsnæði og ekki síður tækifærum til aukningar á rannsóknum og menntunarmöguleikum í samstarfi við atvinnulífið á svæðinu og háskólastofnanir.