- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Erla Dögg Grétarsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Ormsteitis – Héraðshátíðar og hefur hún þegar hafið störf við undirbúning teitisins. Aðalhátíðarhöld Ormsteitisins fara fram dagana 9. – 13. ágúst þar sem m.a. verða á dagskrá hverfaleikar og karnival, fjölskyldudagskrá, tónleikar og dansleikur á Egilsstöðum og Fellabæ og Fljótsdalsdagurinn loks á sunnudeginum.
Á þessu ári eru 70 ár liðin síðan Egilsstaðakauptún var formlega stofnað með lögum og þéttbýlismyndum hófst við bakka Lagarfljótsins. Vonast er eftir góðri þátttöku og aðkomu íbúa sveitarfélagsins, fyrirtækja og félagasamtaka í Ormsteiti þannig að það verði bæði skemmtilegt og glæsilegt á þessu afmælisári.
Erla Dögg er fædd og uppalin á Egilsstöðum og er ferðamálafræðingur að mennt. Hún hefur undanfarið starfað við vöruþróun, sölu og markaðsmál hjá Kexlandi.