Nýr framkvæmdastjóri Ormsteitis

Um miðjan apríl samþykkti stjórn Ormsteitis að ráða Guðrúnu Lilju Magnúsdóttur, menningarstjórnanda, sem framkvæmdastjóra Ormsteitis – Héraðshátíðar. En Guðríður Guðmundsdóttir, sem gengt hefur starfinu undanfarin ár, sagði því lausu um síðustu áramót.

Guðrún Lilja hefur starfað við ýmis menningartengd störf í leikhúsum og við kvikmyndagerð um árabil, þar sem hún hefur meðal annars gegnt störfum á borð við sýningar og sviðsstjórn í Borgarleikhúsinu og unnið sem framleiðslustjóri (Production Manager) við gerð kvikmynda.

Guðrún Lilja er menntaður Evrópufræðingur (MA í Evrópufræðum frá HÍ) og á lokaverkefni sitt eftir af námi í Menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Guðrún starfar nú fyrir Pegasus í tökum sem fram fara á Reyðarfirði í verkefninu Fortitude.