Nýr framkvæmdastjóri Austurbrúar hefur störf í desember

Dr. Karl Sölvi Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Austurbrúar ses. Hann hefur störf í desember. Hann hefur frá 2007 starfað í háskólaumhverfinu á Íslandi fyrst sem dósent og deildarforseti við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og síðar sem forstöðumaður tæknifræðináms Keilis og framkvæmdastjóri Orkurannsókna.

Karl lauk 4. stigs námi við Vélskóla Íslands 1984 og sveinsprófi í rennismíði tveimur árum síðar. Hann fór til háskólanáms í Ohio 1991 þar sem hann lauk grunnnámi í tölvuverkfræði 1996 og meistaranámi 1998.

Leiðin lá aftur til Bandaríkjanna 2001 þar sem Karl lauk doktorsprófi í rafmagnsverkfræði frá Wright State University 2004. Meðfram námi sínu í Bandaríkjunum starfaði Karl hjá hátæknifyrirtækinu LaserMike um 4 ára skeið. Að loknu meistaranámi réði Karl sig til Tern Systems þar sem hann starfaði sem verkefnastjóri við rannsóknir og þróun á samskiptabúnaði fyrir ISAVIA. Að loknu doktorsnámi starfaði Karl um tíma við hugverkavernd hjá Árnason Faktor í Reykjavík.

Í fréttatilkynningu frá Austurbrú segir að helstu áhugamál Karls kallist vel á við hugmyndafræði Austurbrúar  sem varð til í vor með sameiningu Þekkingarnets, Þróunarfélags, Markaðsstofu og Menningarráðs Austurlands, ásamt stjórnsýsluhluta SSA.

Karl er fæddur í Reykjavík 3. desember 1960 og er giftur Unni Hörpu Hreinsdóttur, þau eiga fjögur uppkomin börn og sex barnabörn.