Nýr dráttarvéladiskur frá Tókatækni

Á síðustu árum hefur áhugi á gera upp gamlar vélar aukist mikið og æði stór hópur sem hefur áhuga á slíku. Vítt og breitt um Ísland má finna vélagrúskara. Sumir hafa gert upp eina dráttarvél, aðrir margar.

Myndatökumaðurinn Hjalti Stefánsson og kona hans Heiður Ósk Helgadóttir hjá HS Tókatækni hafa ferðast um landið og heimsótt dráttarvélaráhugamenn. Þau segja:
„Við hittum nokkra fyrir í fyrra og var gefinn út diskur með þeim. Vegna frábærra viðbragða og hvatningar frá kaupendum var ákveðið að leggja í hann og safna efni á annan disk. Sá lítur nú dagsins ljós. Eins og nafnið gefur til kynna var farið vítt og breitt um landið. Diskurinn er 110 mínútur með 16 innslögum.

Á Vestfjörðum hittum við Deutz aðdáendurnar Elvar Sigurgeirsson í Bolungarvík og Guðmund Sigurðsson á Svarthamri við Súðavík. Við hittum líka Sæmund Þorvaldsson í Dýrafirði sem sýnir okkur sína vél. Vélagrúskarar eru á öllum aldri, við ræðum við Almar Óla, 14 ára á Hvolsvelli sem gerir upp Deutz og Inga Þór 12 ára í Borgarfirði sem er langt kominn í vélagrúskinu. Enn lengra komnir eru eldri herrarnir sem hafa athvarf á Finnsstöðum á Fljótsdalshéraði, en þeir hittast nánast daglega til að skrúfa og skrafa.

Við skoðum aflmesta traktor landsins og hittum Jóhann Marvinsson bónda á Svínabökkum, David Brown aðdáanda. Vélaáhuginn hefur ýmsar birtingarmyndir og við hittum tvo menn sem fara sínar eigin leiðir. Rætt er við Odd Einarsson, framkvæmdastjóra Þórs hf. um sögu fyrirtækisins og Sigurð Skarphéðinsson sem fylgdi MF 100 línunni úr hlaði hér á landi og þjónustaði þær í áratugi. Litið er við á Grund í Reykhólasveit og Farmall BMD Super í Bárðardal skoðaður. Í fróðleikshorninu er sandblástur kynntur og farið yfir undirbúning fyrir málningu. Auk þess er á disknum einstök kvikmynd frá heyskap á Vesturlandi árið 1957.“

Á þessari upptalningu má sjá að þarna kennir ýmissa grasa og flestum tegundum dráttarvéla bregður fyrir við fjölbreyttar aðstæður.
Verðið á disknum er 3.600 kr. m/vsk og fer salan fyrst og fremst fram í beinni sölu frá framleiðanda með tölvupósti á tokataekni@gmail.com og í síma 471 3898. Móttaka pantana er hafin.

HS Tókatækni er fyrirtæki Hjalta Stefánssonar og Heiðar Óskar Helgadóttur. Hjalti er landsmönnum að góðu kunnur sem myndatökumaður Sjónvarpsins á Austurlandi á árunum 1999 – 2012 þar sem hann sá að mestu leyti um myndatökur og klippingar fyrir Sjónvarpið á Austurlandi. Heiður Ósk Helgadóttir, einnig kunn af störfum sínum fyrir Sjónvarpið í áratugi, sér um hljóðvinnslu og grafík. Dagskrárgerð disksins er alfarið í þeirra höndum. Þau fengu sér til fulltingis Jens Kr. Þorsteinsson hjá Jennafilm í Kópavogi sem sér um að koma efninu á diska og fjölföldun þeirra. Þau vilja þakka þeim hjálpuðum þeim að leggja í þetta verk fjárhagslega en það eru m.a. Þór hf., Vélfang ehf., Blástur.is og Orka ehf.