- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Nú styttist í að þær breytingar á sorphirðu á Fljótsdalshéraðs, sem ákveðnar hafa verið með samningi við Íslenska gámafélagið, taki gildi, með enn frekari áherslu á flokkun og endurvinnslu. Öll heimili í þéttbýlinu munu flokka í þrjár tunnur, almennt sorp fer í gráa tunnu, endurvinnanlegt fer í grænu tunnuna sem fyrir er og lífrænt sorp í brúna tunnu, en í dreifbýlinu fer það í sérstakt jarðgerðarílát. Ráðgert er að brúnum og gráum tunnunum verði dreift á Egilsstöðum og í Fellabæ dagana 25.-27. september n.k., en íbúar í dreifbýli hafa nú þegar fengið tunnur afhentar. Fyrsta losun eftir breytingar verður á almennu sorpi þann 28. september og síðan verður sorphirðudagatali í sorphirðuhandbókinni fylgt, en henni var dreift til íbúa sveitarfélagsins í vor, en má líka nálgast á þessari síðu á vef sveitarfélagsins.
Þau heimili sem nú þegar hafa endurvinnslutunnur geta sagt þeim upp þar sem í Grænu tunnuna, sem ætluð er fyrir endurvinnanlegan úrgang og er innifalin í sorphirðugjöldum sveitarfélagsins, fer það sama og í endurvinnslutunnur.
Kynning á nýju sorphirðufyrirkomulagi fór fram í lok maí s.l. en fyrirhugað er að heimsækja þau heimili, sem ekki náðist til þá, dagana 25. og 26. september. Þeir sem óska eftir að fá fræðslu geta sent póst á netfangið igf@igf.is eða hringt í síma 577 5757.
Á vefsvæðinu Flokkarinn www.flokkarinn.is er að finna margvíslegar upplýsingar og fróðleik um endurvinnslu á myndrænan og fjölbreyttan hátt.