- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
17. júní, á Þjóðhátíðardegi Íslendinga, verða opnaðar sýningar bæði í Safnahúsinu og Sláturhúsinu menningarsetri á Egilsstöðum. Allir eru velkomnir og ókeypis er inn á báða staðina. Þá verða menningarverðlaun Fljótsdalshéraðs afhent í Sláturhúsinu.
Menningarverðlaun Fljótsdalshérað verða í annað sinn afhent í Sláturhúsinu menningarsetri kl. 15.15. Verðlaunin er hægt að veita einstaklingi, stofnun eða samtökum sem viðurkenning fyrir eftirtektarvert framtak á sviði lista og menningar. Hlutverk verðlaunanna er einnig að vera almenn hvatning til eflingar á menningar- og listastarfi í sveitarfélaginu.
Klukkan 14:00 verður opnuð í Safnahúsinu ný sýning með verkum listamannsins Guy Stewart. Sýningin ber yfirskriftina Flugdrekabók og er óður til bókarinnar og bókmenningar, íhuguls lesturs og frelsis ímyndunaraflsins. Sýningin samanstendur af sjö flugdrekabókum sem hver og ein er tileinkuð fornu bókmenntaverki. Þá verður nýtt krakkahorn Minjasafnsins formlega tekið í notkun en þar mun hreinkýrin Hreindís taka vel á móti krökkum í sumar með margvíslegum fróðleik og afþreyingu.
Í Sláturhúsinu opnar Menningarmiðstöðin fyrri sumarsýningu ársins, sem ber heitið Tengsl og er yfirlitssýning á verkum Ríkharðs Valtingojer. Ríkharður Valtingojer bjó lengi á Stöðvarfirði en lést á síðasta ári og ferill hans spannar allt frá málverki til grafíkur. Sýningin opnar klukkan 15:00 og utandyra verður uppákoma fyrir börn á öllum aldri.
Klukkan 16:30 mun tékkneska listakonan Monica Frycova, sem búsett er á Seyðisfirði, segja frá verki sínu „Pure Mobile vs. Dolce Vita“, sem að er í grunninn ferðalag hennar á mótorhjóli, með íslenskan saltfisk í farteskinu, frá Borgarfirði eystri til Portúgal. Leiðina gegnum Evrópu skrásetti hún með ljósmyndum, texta og teikningum í bók, sem kom út á síðasta ári. Monica ætlar að sýna okkur kvikmynd sem að fjallar um ferðalagið og spjalla við okkur ferðina og lífið. Hver veit, kannski verður boðið upp á smakk af borgfirskum saltfiski líka.
Á dögunum hlutu Minjasafn Austurlands, Tækniminjasafnið á Seyðisfirði, Sjóminjasafnið á Eskifirði og Gunnarsstofnun tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna fyrir sýninguna „Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi?“. Sýningin var hluti af stóru samstarfsverkefni sem níu mennta-, menningar- og rannsóknarstofnanir á Austurlandi tóku höndum saman um í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018. Á sýningunni eru aðstæður barna á árunum 1918 og 2018 bornar saman og speglaðar við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í tilefni af tilnefningunni hefur sýningin nú verið sett upp að nýju í Sláturhúsinu.