Nýir eigendur að Austurfrakt ehf.

Brynjólfur Viðar Júlíusson og Svana Hansdóttir hafa keypt Austurfrakt ehf. af Degi Indriðasyni og Guðrúnu Valdimarsdóttur. Viðar og Svana eiga félag sem heitir SV bílar og hafa meðal annars annast flutninga fyrir Byko síðasta áratug.

Nýju eigendurnir ætla að reka Austurfrakt með saman sniði og áður. Engum verkefnum verður hætt en þjónusta bætt að fremsta megni. Áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Austurlands hefur verið fjölgað og eftir mánaðarmót verða daglegar ferðir.

Í fréttatilkynningu frá Degi Indriðasyni þakkar hann viðskiptavinum og starfsfólki fyrir góða samvinnu og óskar nýjum eigendum til hamingju með félagið.