Nýir deildarstjórar teknir til starfa

Tveir deildarstjórar hófu nýlega störf hjá Fljótsdalshéraði. Það eru Gunnlaugur Rúnar Sigurðsson skipulags- og byggingarfulltrúi og Júlía Sæmundsdóttir félagsmálastjóri.

Gunnlaugur Rúnar lauk prófi í byggingarfræði frá VIA- Universitet í Horsens, ásamt því að hafa stundað nám í landmælingum og kortagerð frá sama skóla. Einnig hefur hann sveinspróf og meistararéttindi í húsasmíði og er með löggildingu sem hönnuður skv. 25. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Frá árinu 2011 hefur Gunnlaugur Rúnar starfað hjá sveitarfélagi Hornafjarðar, fyrst sem skipulags- og byggingarfulltrúi og nú síðasta árið sem byggingarfulltrúi. Á þeim tíma hefur hann haldið utan um heildar endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og stýrt gerð fjölda deiliskipulaga svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt hefur Gunnlaugur Rúnar reynslu af stjórnun verkefna og sem verkstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum.

Júlía lauk námi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2008. Undanfarið hefur hún lagt stund á M.A. nám frá Háskóla Íslands í rannsóknum þar sem hún hefur lagt áherslu á opinbera geirann og barnavernd.

Áður en Júlía hóf störf hjá Fljótsdalshérað vann hún sem félagsráðgjafi, teymisstjóri og faglegur stjórnandi í Nyborg Kommune í Danmörku þar sem hún bar faglega ábyrgð á starfi barnaverndarstarfsmanna innan teymisins ásamt því að vera ábyrg fyrir samhæfingu og innleiðingu sænska módelsins.

Áður hafði Júlía starfað sem félagsráðgjafi í barnavernd Reykjanesbæjar, félagsráðgjafi í Barnavernd Kópavogs, félagsráðgjafi í Fjallabyggð og sem deildarstjóri barnaverndar á norðanverðum Vestfjörðum. Júlía hefur einnig reynslu af stjórnun og rekstri í störfum sínum.

Fljótsdalshérað býður þessa nýju deildarstjóra velkomna til starfa.