Ný ljósmyndasýning er komin á heimasíðu Héraðsskjalasafns Austfirðinga,
www.heraust.is . Nefnist sýningin einfaldlega Vorsýning. Samkvæmt venju hefur Arndís Þorvaldsdóttir haft veg og vanda af gerð sýningarinnar. Líkt og jafnan áður er leitað til sýningargesta eftir upplýsingum um einstaka myndir í sýningunni.
Á vorsýningu ljósmyndasafnsins er víða leitað fanga. Birtar eru nokkrar myndir frá skíðamóti Austurlands sem haldið var á Fagradal í byrjun áttunda áratugar 20. aldar. Myndirnar tók Jón Ásgeir Jónsson pípulagningarmaður sem um skeið var búsettur á Egilsstöðum. Margt af því fólki sem þar sést er óþekkt og eru upplýsingar þegnar með þökkum (í síma 471 1417 eða á netfangið arndis@heraust.is).
Undan farin ár hefur Sólveig Sigurðardóttir á Seyðisfirði verið óþreytandi við söfnun mynda og skannað fjölda þeirra inn á diska. Við birtum hér myndir úr einkasöfnum þriggja Seyðfirðinga sem Sólveig hefur skannað. Um er að ræða söfn úr fórum Guðjóns Sæmundssonar, Pálínu Waage og Vilbergs Sveinbjörnssonar. Í nokkrum tilvikum voru myndirnar til bæði í safni Pálínu og Guðjóns og því erfitt að úrskurða hvaðan þær komu í upphafi. Úr þessum söfnum hafa m.a. verið valdar myndir sem sýna þá samgönguerfiðleika sem menn áttu við að etja á Fjarðarheiði fyrir fáeinum áratugum. Einnig eru myndir frá mannlífi á Seyðisfirði í leik og starfi. Þá eru dregnar fram nokkrar fjölskyldu- og fermingarmyndir á ýmsum tíma.