Ný heimasíða Hallormsstaðaskóla

Í tengslum við gerð nýrrar heimasíðu Fljótsdalshéraðs sem opnuð var sl. haust, var ráðist í að hanna eða endurgera heimasíður fyrir stofnanir sveitarfélagsins. 

Þessar heimasíður eru nú sem óðast að verða tilbúnar og verða opnaðar hver á fætur annarri á næstu vikum. Heimasíða Hallormsstaðaskóla er fyrsta síðan sem nú er opnuð í þessari endurgerðu mynd, en hana má nálgast á vefslóðinni www.fljotsdalsherad.is/hallormsstadaskoli . Um næstu mánaðarmót er gert ráð fyrir að allir leikskólarnir verði tilbúnir með sínar heimasíður og verður vakin athygli á því hér á heimasíðu sveitarfélagsins þegar þeim áfanga verður náð.

Heimasíður skólastofnana gegna veigamiklu hlutverki í samskiptum skólanna við nærumhverfi sitt og þá einkum þær fjölskyldur sem að skólastarfinu koma. Hvort sem um er að ræða hagnýtar upplýsingar um starfsemi og starfsfólk eða myndir og frásagnir af daglegu starfi í skólunum þá dylst það engum að virk og lifandi heimasíða gerir gott skólastarf enn sýnilegra.