Ný heimasíða Fljótsdalshéraðs

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, í dag, var opnuð ný heimasíða Fljótsdalshéraðs. Markmiðið með hinni nýju útgáfu er að gera upplýsingar og þjónustu sveitarfélagsins enn betri og aðgengilegri en verið hefur.

Nýja heimasíðan byggir í grunninn á sama skipulagi og hin fyrri, þ.e. hún er mynduð af þremur megin gáttum eða sviðum. Í fyrsta lagi er um að ræða upplýsingagátt að þjónustu sveitarfélagsins (Þjónusta) og stofnunum á vegum þess. Önnur gáttin er að ýmsu er varðar stjórnsýsluna sjálfa (Stjórnsýsla) svo sem um bæjarstjórn og nefndir og fulltrúa þeirra, starfsfólk, fundargerðir, um stefnur, samþykktir, reglur og gjaldskrár og fleira. Þriðja gáttin snýr meira að gestum og gangandi (Ferðamenn), þó þar sé vissulega að finna upplýsingar sem gagnast einnig íbúunum. Þarna er t.d. að finna gönguleiðakort, loftmyndir af sveitarfélaginu og áhugaverða veftengda náttúrumæraskrá sem Helgi Hallgrímsson hefur unnið. Aðrar upplýsingar varða afþreyingu, gistikosti og fleira sem koma ferðafólki að gagni. Þessar upplýsingar eru að mestu leyti sóttar beint á nýjan vef á vegum Markaðsstofu Austurlands.

Á nýju heimasíðu sveitarfélagsins eru frétta- og viðburðatengdar upplýsingar mun sýnilegri en áður var. Hægt er að gerast áskrifandi að fréttum síðunnar og fá þær sendar með tölvupósti. Til að virkja þessa þjónustu er farið inn á síðuna Póstlistar, sem finna má neðst á forsíðunni.
Viðburðadagatal má einnig finna á hinni nýju heimasíðu, en þar mun verða kappkostað við að birta upplýsingar um viðburði á vegum sveitarfélagsins og annarra. Þær upplýsingar munu þó takmarkast við það að starfsfólk á skrifstofu sveitarfélagsins hafi vitneskju um þá. Þeir sem óska eftir að fá viðburði birta á viðburðadagatalinu geta sent tölvupóst á fljotsdalsherad@fljotsdalsherad.is

Þá er búið að koma fyrir nokkrum flýtihnöppum á forsíðu heimasíðunnar, sem vísa á þær upplýsingar og stofnanir sem algengt er að leitað er eftir. Einnig hefur aðgengi að bæjarfulltrúum og fundargerðum fastanefndanna verið gert meira áberandi en var.

Loks er vert að benda á vefmyndavél sem tekur myndir á nokkurra sekúndna fresti af þeim hluta sveitarfélagsins sem er sunnan við þéttbýlið og í áttina að sjálfu Snæfelli, yfir þéttbýlið á Egilsstöðum og Fellabæ og norður í áttina að Smjörfjöllum og Héraðsflóa.

Enn er unnið að lokafrágangi á heimasíðunni en gert er ráð fyrir að texti verði allur kominn inn í lok vikunnar. Allar ábendingar um það sem betur má fara eru vel þegnar.