- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda voru kynnt á laugardag við athöfn í Háskólanum í Reykjavík. Veitt voru verðlaun í fjórum flokkum.
María Jóngerð Gunnlaugsdóttir úr Egilsstaðaskóla hlaut fyrstu verðlaun í flokki tölva og tölvuleikja fyrir hugmynd sína að líkamsleik.
Kristinn Knörr Jóhannesson úr Grunnskólanum austan Vatna bar sigur úr býtum í landbúnaðarflokki fyrir hugmynd sína að fjármerkjaskanna. Óttar Egill Arnarsson úr Hofsstaðaskóla hreppti fyrsta sætið í flokki uppfinninga fyrir hugmynd sína að beltisbíl. Ægir Örn Kristjánsson einnig úr Hofsstaðaskóla varð í fyrsta sæti í flokki útlits- og formhönnunar fyrir hugmynd sína um plastver.
Þetta var í 21. sinn sem keppnin fór fram. 1.100 hugmyndir frá 32 grunnskólum bárust í keppnina. 40 þátttakendum var boðið til til vinnusmiðju og að henni lokinni fengu 14 verðlaun fyrir 12 hugmyndir.
Farandbikarinn í flokki stærri skóla, sem veittur er fyrir hlutfallslega flestar hugmyndir í keppninni, hlaut Hofsstaðaskóli í Garðabæ . Farandbikarinn í flokki minni skóla hlaut Brúarásskóli á Fljótsdalshéraði.
María Jóngerð hlaut Guðrúnarbikarinn, en bikarinn er veittur hugmyndasmið sem er talinn hafa skarað fram úr fyrir hugmyndaauðgi, dugnað, kurteisi og samviskusemi. Í frétt um keppnina á mbl.is má sjá mynd af Maríu og Önnu Huldu Ólafsdóttur sem afhenti bikarinn til minningar um móður sína, Guðrúnu Þórsdóttir, ásamt mynd af hópnum.
Til hamingju María Jóngerð! Og til hamingju Brúarásskóli!