- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Úrslit Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda fór fram í 21. sinn sunnudaginn 26. maí. 2.906 hugmyndir bárust í keppnina frá 44 grunnskólum. 53 þátttakendur voru valdir í úrslitakeppni og af þeim hlutu 18 verðlaun fyrir hugmyndir sínar. Þar af voru Almar Aðalsteinsson, Elva Dögg Ingvarsdóttir, Margrét María Ágústsdóttir og Ragnheiður Þorsteinsdóttir frá Egilsstaðaskóla.
Almar fékk 1. verðlaun í flokki tölvu- og tölvuleikja fyrir tölvuleikinn Víkingar á ferð og flugi þar sem Hrafna Flóki og fleiri landsnámsmenn eru í aðalhlutverki, en stúlkunar lentu í 3. sæti í flokki landbúnaðar fyrir bændahjálp.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari keppninnar, afhenti verðlaun og flutti hátíðarræðu. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra flutti hvatningarræðu, afhenti viðurkenningarskjöl til þátttakenda og farandbikar til grunnskóla. Þá kynntu þátttakendur sjálfir hugmyndir sínar fyrir gestum.
Þá voru þeir skólar sem sendu inn hlutfallslega flestar hugmyndir í keppnina verðlaunaðir og fengu fulltrúar þeirra afhenta farandbikara. Í flokki stærri grunnskóla fékk Hofsstaðaskóli í Garðabæ bikarinn, en þetta er fimmta árið í röð sem skólinn hlýtur þessa viðurkenningu. Í flokki minni skóla hlaut Brúarásskóli í Fljótsdalshéraði þennan heiður annað árið í röð.
Tilgangur Nýsköpunarkeppni grunnskóla er að efla nýsköpunarstarf í grunnskólum, gera börnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og hvernig hægt er að þroska hana með útfærslu eigin hugmynda. Frá upphafi keppni hafa borist nær 40.000 hugmyndir frá börnum um allt land.