Niðurstöður um íþrótta- og frístundaiðkun kynntar

Næstkomandi mánudag  þann 3. maí mun Jón Ingi Sigurbjörnsson kennari í ME kynna helstu niðurstöður úr könnun á íþrótta- og frístundaiðkun nemenda í 4. til 10. bekk á Fljótsdalshéraði.  Könnun þessi var unnin að frumkvæði menningar- og íþróttanefndar og jafnréttisnefndar, í góðri samvinnu við grunnskóla sveitarfélagsins. Hún var lögð fyrir nemendur í skólunum og er svörun því mjög góð. Jón Ingi og nemendur hans á félagsfræðiskor í ME unnu síðan úr könnuninni tóku saman niðurstöður. Jón Ingi og nemendur hans hafa nokkrum sinnum áður unnið úr könnunum fyrir sveitarfélagið og eru báðir aðilar ánægðir með þetta samstarf. Meðal annars var gerð sambærileg könnun fyrir tveimur árum og er því forvitnilegt að bera niðurstöðurnar saman.

Kynningarfundurinn verður haldinn í Hlymsdölum 3. maí kl. 17:00. Sérstaklega er skorað á foreldra barna á þessum aldri og fólk sem vinnur með þeim t.d. í skólum, félagsmiðstöðvum og íþróttum að mæta, kynna sér niðurstöður og ræða málin.