Nemendur kynna sér kurlkyndistöðina

Í byrjun mars komu 14 nemendur úr Hallormsstaðaskóla ásamt kennurum í heimsókn í kurlkyndistöðina á Hallormsstað. Heimsóknin var liður í umhverfisstefnu skólans, en Hallormstaðaskóli er einn af þeim skólum sem getur flaggað Grænfánanum svokallaða. Skólar í Grænfánaverkefninu setja sér markvissa umhverfisstefnu, m.a. í orkumálum. 

Loftur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógarorku ehf. sem rekur kurlkyndistöðina,  tók á móti hópnum og sýndi stöðina og vélbúnaðinn. Talsverðar umræður spunnust út af mötunarkerfi ketilsins, en krakkarnir voru ekki fullkomlega sannfærðir um að það væru sniglar sem að flyttu kurlið úr hlöðunni í brunarýmið. 

Skógarorka ehf. rekur kurlkyndistöð á Hallormsstað. Kyndistöðin nýtir afurðir úr nærliggjandi skógum  til húshitunar á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt. Hallormsstaðaskógur er þekktastur íslenskra skóga og skartar hæstu trjám landsins. Það er því vel við hæfi að efniviður úr skóginum nýtist til húshitunar innan hans.

Viðarkynding er kolefnishlutlaus orkugjafi og vistvænn valkostur. Sá koltvísýringur sem losnar út í andrúmsloftið við bruna viðarkurls er sá sami og losnar þegar tré deyja og fúna.
Kyndistöðin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Húshitun af þessu tagi nýtur mikilla vinsælda á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu, þar sem efniviður er nægur.