Nemendur í fornleifauppgreftri

Eitt af nýjustu verkefnum safnkennslunnar á Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum er fornleifauppgröftur fyrir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins. Á morgun, miðvikudaginn 27. júní, kl. 12.40 – 14.00, mun næsti hópur nemenda úr 6.bekk Egilsstaðaskóla taka þátt í slíkum uppgreftri.
Í verkefninu undirbúa nemendur heimsókn sína á safnið með vefleit þar sem þeir afla sér upplýsinga um fornleifar, jarðlög og staðarins þar sem uppgröftur fer fram í þykjustunni. Þeir koma síðan á safnið 8-10 saman í hóp. Heimsóknin hefst á því að skoða nýja sýningu safnsins, Dauðir rísa-úr gröfum Skriðuklausturs, en hún tengist uppgreftri beinagrinda frá Skriðuklaustri. Nemendur fá leiðbeiningar um aðferðir fornleifafræðinga við uppgröft og bregða sér sjálfir í gervi fornleifafræðinga með tilheyrandi áhöldum og sérstöku skráningarblaði.
Þegar hafa fjórir hópar úr Grunnskólanum á Egilsstöðum komið í þetta verkefni og hafa flestir haft mjög gaman af því. Myndir á heimasíðu safnsins, www.minjasafn.is sýna vinnu nemenda við að grafa, mæla, teikna og skrá fundina sína.
Fornleifauppgröftur fyrir nemendur er eitt af mörgum verkefnum safnkennslu Minjasafns Austurlands sem byggist á hugmyndafræði um skemmtimenntun. Áhersla er lögð á að heimsóknir nemenda á safnið tengist sýningum og munum safnsins beint og að nemendur fái tækifæri til að upplifa, prófa eða búa til eitthvað byggt á þeirri fræðslu sem þeir hljóta hverju sinni.
Nemendur koma ekki á safnið til að „ganga hringinn um salinn“ með leiðsögn, heldur byggist hver heimsókn á ákveðnu þema, yfirleitt í tengslum við námsefni sem nemendur eru að vinna með. Þannig er reynt að tryggja að nemendur komi mörgum sinnum í heimsókn á safnið á skólagöngu sinni, muni betur eftir því sem þeir fræddust um og skilji sögu og menningu sína betur.