- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Tónlistarkeppni tónlistarskólanna, Nótan, fer fram í fjórða sinn í ár. Fyrirkomulag keppninnar er þannig að haldnir eru fernir svæðatónleikar þar sem valin eru atriði til að taka þátt í lokatónleikunum sem eru haldnir í Hörpunni. Svæðistónleikarnir fyrir Austur- og Norðurland fóru að þessu sinni fram á Egilsstöðum þann 16. mars síðastliðinn. A þeim tónleikum komu fram ríflega 40 nemendur frá 10 tónlistarskólum. Sérstök valnefnd valdi sjö atriði til að keppa fyrir hönd svæðisins á lokatónleikunum í Hörpu sem fara fram 14. apríl.
Eitt af þessum sjö atriðum kom frá Tónlistarskólanum á Egilsstöðum. Það eru þau Erlingur Gísli Björnsson og Karen Ósk Björnsdóttir, en þau léku fjórhent á píanó verkið Vindar frelsis eftir Isaak Dunayevskij. Einnig fékk Hrafnhildur Margrét Áslaugardóttir, nemandi Tónlistarskólans í Fellabæ önnur af tveimur aukaverðlaunum sem veitt voru en þau veita ekki þátttökurétt á lokatónleikunum.
Frábær árangur hjá nemendum tónlistarskólanna, en einnig má geta þess að tvö önnur atriði frá Austurlandi voru valin, hljómsveit frá Tónlistarskóla Eskifjarðar og Reyðarfjarðar og söngkona/gítarleikari frá Tónlistarskóla Fáskrðusfjarðar og Stöðvarfjarðar.