Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs komin á prent

Fyrir stuttu kom út Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs, eftir Helga Hallgrímsson, náttúrufræðing. Skráin er tæplega 160 blaðsíður að stærð og er lýsing á um 600 stöðum og svæðum, í sveitarfélaginu, sem höfundur telur sérstaklega athyglisverð og kallar náttúrumæri. Þeir sem áhuga hafa geta fengið eintak af náttúrumæraskrá Helga á skrifstofum sveitarfélagsins án endurgjalds.

Í formála náttúrumæraskrárinnar kemur fram að fyrstu drög að henni voru sett saman árið 1992, en aukin og endurbætt 1994 og nefndust þá „Náttúruminjaskrá Héraðs". Árið 1998 var skráin endurrituð og bætt við kafla um hálendið. Veturinn 2007-2008 var öll skráin endurskoðuð með tilliti til nýrrar vitneskju og breytinga á umhverfi og mannlífi og loks var hún lagfærð og leiðrétt haustið 2009.

Þá segir í formála: „Svæðisskipulag Héraðssvæðis varð hvati að endurskoðun verksins 1998, þegar samvinnunefnd um það verkefni ákvað að kaupa afnotarétt af skránni, og síðasta endurskoðun var gerð vegna aðalskipulags sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs 2007, sem fyrirtækið Alta ehf í Reykjavík annaðist. Á vegum Alta voru náttúrumæri í 1. og 2. flokki, ásamt útlínum griðlanda, færð inn á kort, eftir uppkasti Helga. Það var síðan útfært í stafrænu formi og sett á heimasíðu Fljótsdalshéraðs, ásamt allri skránni." Vefrænu útgáfuna má finna hér.

„Sá kostur var valinn að skrásetja sem flesta athyglisverða staði og svæði, sem hér kallast náttúrumæri. Jafnframt er reynt að lýsa landslagi þeirra í stuttu máli og geta um helstu örnefni. Oft er líka minnst á gróður, fuglalíf og fiska í vötnum. Skráin er því eins konar náttúrulýsing og ætti að gefa nothæft yfirlit um náttúrufar Héraðs. Reynt hefur verið að tengja nálæga staði saman í stærri svæði sem hér kallast griðlönd og má líta á sem æskileg verndarsvæði. Við afmörkun griðlanda er miðað við að innan þeirra sé samstæð landslagsheild og ákveðin sérkenni sem reynt er að draga fram í stuttri lýsingu á þeim. Griðlöndin jaðra oft saman og tengjast í stærri heildir."

Í niðurlagi formála Helga að náttúrumæraskránni segir: „Á Fljótsdalshéraði er margbreytilegt landslag og veðurfar, sem gefur tilefni til samsvarandi fjölbreytileika flóru, gróðurs og dýralífs. Skráning náttúrumæra á þessu svæði er því ekkert áhlaupaverk. Þarf vart að taka fram að skráin er engan veginn endanleg, því að aukin þekking og ný viðhorf munu valda því að hana verður stöðugt að endurbæta. Samt vonast ég til að hún stuðli að því að vekja athygli Héraðsbúa og annarra á hinu fjölbreytta náttúrufari svæðisins og þeim miklu verðmætum sem þar eru í húfi þegar um framkvæmdir er að ræða."