Námskeið fyrir foreldra á Fljótsdalshéraði

Náum tökum á lestrarnáminu á skemmtilegan hátt við eldhúsborðið heima.

Námskeið fyrir foreldra á Fljótsdalshéraði. 

Námskeiðið verður haldið í Fellaskóla, miðvikudaginn 12. september 2018 kl.17-19.

Lestur er undirstaða alls náms og því mikilvægt að styrkja grunninn og auðvelda börnum lestrarnámið eins og kostur er. Námskeiðið er fyrir fjölskyldur 5 til 7 ára barna sem vilja styðja vel við nám barnsins og styrkja þekkingu barna sinna á bókstöfum og hljóðum og efla þannig lestrarkunnáttu þeirra. Margir foreldrar vilja hjálpa börnum sínum við lestrarnámið en vita ekki hvernig best er að bera sig að. Á námskeiðinu eru kynntar árangursríkar, fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir til að æfa bókstafi, hljóð og hljóðtengingu sem allt er grunnur í lestrarnáminu. Þátttakendur fá í hendurnar gögn og hugmyndir sem hægt er að notast við heima og því er auðvelt að hefjast handa samstundis. Á námskeiðinu er fjallað um:

  • Leiðir til að efla lestrarkunnáttu 5 - 7 ára barna á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt.
  • Leiðir til að velja viðfangsefni og greina vanda.
  • Hvernig ná má góðum árangri með stuttum og hnitmiðuðum æfingum.

Fyrir hverja: Námskeiðið er ætlað þeim sem vilja efla lestrarkunnáttu barna sinna heima við á fjölbreyttan, skemmtilegan og hnitmiðaðan hátt. Ekki er krafist sérstakrar kunnáttu á lestrarnámi barna, aðeins áhuga og vilja til að hjálpa til og ná árangri.

Kennsla: Helga Kristjánsdóttir er leik- og grunnskólakennari að mennt og hefur 20 ára reynslu af starfi með börnum. Helga hefur einbeitt sér kennslu ungra barna og er nú kennari í Salaskóla í Kópavogi.

Skráning: Nauðsynlegt er að skrá sig á námskeiðið, sem er ókeypis fyrir foreldra barna á Fljótsdalshéraði.

Skráning fer fram í tölvupósti hjá Bylgju Borgþórsdóttur (bylgja@egilsstadir.is), en hún veitir einnig nánari upplýsingar um námskeiðið.