Myndlistarsýning og námskeið

Voyager, sjö manna hópur mastersnema frá Winchester School of Art í Englandi stendur fyrir námskeiði og myndlistarsýningu á Egilsstöðum og Borgarfirði eystra í næstu viku. Meðal sjömenninganna er Íris Lind Sævarsdóttir frá Egilsstöðum.

Hópurinn hefur unnið að sýningu um æskuminningar frá heimalöndum sínum en í hópnum eru einstaklingar frá Englandi, Indlandi, Palestínu, Kóreu og loks Íslandi. Myndlistarsýning hópsins verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum mánudaginn 9. júlí, kl. 20.00 og stendur hún fram til 12. júlí.

Þá verður boðið upp á eins dags myndlistarnámskeið á Egilsstöðum og Borgarfirði eystra. Námskeiðið á Egilsstöðum verður haldið þann 10. júlí fyrir krakka sem fara í 7. bekk næsta vetur. Það fer fram í Grunnskólanum á Egilsstöðum og stendur frá kl. 10.00 – 16.00 en skráning er á netfangið irislind@gmail.com eða hjá menningar- og frístundafulltrúa Fljótsdalshéraðs í síma 4 700 700. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Námskeiðið á Borgarfirði verður haldið þann 11. júlí milli kl. 10.00 og 16.00 og er fyrir alla nemendur grunnskólans og eldri borgara. Skráning er á netfangið irislinds@gmail.com eða á skrifstofu Borgarfjarðarhrepps. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Námskeiðið er stutt meðal annars af Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Menningarráði Austurlands.