Mun betra að fylgjast með bæjarstjórnarfundum

Tekinn hefur verið í notkun nýr búnaður til að senda fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs út á Netinu. En um nokkurt árabil hefur verið hægt að fylgjast með beinum útsendingum fundanna svo og að horfa á þá sem upptöku eftir að fundi lýkur. Helstu kostir hins nýja búnaðar eru að nú er hægt velja einstök mál á fundinum og hlusta á þau, eftir að fundinum er lokið. Þannig þarf ekki lengur að hlusta á allan fundinn og bíða eftir að komi að því máli sem viðkomandi vill hlusta á umræðu um. Útsendingarbúnaðurinn býður upp á ýmsa fleiri kosti s.s. að gefa áhorfendum að útsendingum tækifæri til að nálgast skjöl eða viðhengi sem tengjast máli sem er til umfjöllunar. Fundir bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs eru aðgengilegir á heimasíðu sveitarfélagsins m.a. í gegnum borða á forsíðu hennar sem heitir Bæjarstjórn í beinni, eða hér. Þar er hægt að fylgjast með beinni útsendingu funda eða skoða eldri fundi.

Það er fyrirtækið Nepal í Borgarnesi sem hannar og framleiðir hugbúnaðinn sem heitir eMission. Hann er m.a. notaður af flestum háskólum landsins til að taka upp og senda út fyrirlestra. Fljótsdalshérað er fyrsta sveitarfélagið til að taka hugbúnaðinn í notkun og má því segja að um tilraunaverkefni sé að ræða og vonast Nepal til að önnur sveitarfélög fylgi í fótspor Fljótsdalshéraðs.