Minjasafnið fékk styrk frá Vinum Vatnajökuls

Undanfarið hefur safnstjóri Minjasafns Austurlands lagt drög að stóru verkefni, eða sýningu, í samstarfi við Náttúrustofu Austurlands, Þorpið og fleiri aðila, sem tengist náttúru, sögu og menningu Austurlands og er efnið sambúð manna og hreindýra, frá því þessi villtu dýr komu í fjórðunginn.

Verkefnið verður til húsa í Minjasafninu en þemað er sameign Austurlands og því munu margir verða til kallaðir um ráð og ábendingar, efni, muni og heimildir á meðan unnið verður að verkefninu.

Safnað verður efni í máli og myndum, efni á léttum og alvarlegum nótum, fræðilegu efni og skáldskap, og öllu þar á milli, sem og ýmsum gripum og allra handa myndefni og tónlist.

Fjármögnun stendur yfir enda er verkefnið stórt. Í desemberbyrjun úthlutaði stjórn Vina Vatnajökulsþjóðgarðs styrk til 22 verkefna. Hæsta styrkinn í úthlutun að þessu sinni hlaut Minjasafn Austurlands til ofangreinds verkefnis sem ber yfirskriftina; Hreindýr og menn: Sýning um sambúð manna og hreindýra á Austurlandi.