Milljarður rís

Viðburðurinn Milljarður rís (One Billion Rising) er dansbylting sem UN Women heldur nú í fimmta sinn. Herferðin er alþjóðleg og var hrundið af stað á Valentínusardag 2012 sem andófi gegn kynbundnu ofbeldi. Viðburðurinn fer fram þann 17. febrúar frá klukkan 12:00 til 13:00. Sláturhúsið á Egilsstöðum verður einn staðanna þar sem dansbyltingin er haldin í ár.

Eftirfarandi er úr bréfi frá UN Women á Íslandi um Milljarður rís á Íslandi í ár:

Í ár heiðrum við minningu Birnu Brjánsdóttur. Tökum höndum saman og berjumst gegn kynbundnu ofbeldi með væntumþykju, hlýju og dansi.

Í kjölfar hvarfs Birnu Brjánsdóttur hafa konur hér á landi stigið fram og lýst þeim veruleika sem þær búa við. Þeim ótta og óöryggi sem þær finna fyrir á götum úti og hvernig þær axla ábyrgð á mögulegu ofbeldi með því að forðast augnsamband, velja ákveðnar götur fram yfir aðrar, halda á lykli milli fingra sinna í annarri hendi og símanum í hinni með 112 á hraðvali er þær ferðast milli staða að kvöld- og næturlagi. Þessi veruleiki er þó síður en svo aðeins bundinn við Reykjavík. Ofbeldi eða ótti við að verða fyrir því er hluti af daglegu lífi kvenna víða um heim.

Hátt í 13 þúsund manns hafa komið saman undanfarin fimm ár og dansað víða um landið. Í ár pússum við dansskóna enn betur en fyrri ár því dansinn mun duna í Sláturhúsinu.

Taktu daginn frá! Við skorum á  starfsmannahópinn að fjölmenna í Sláturhúsið og dansa saman af krafti með gleði og hlýju að leiðarljósi fyrir Birnu Brjánsdóttur sem kvaddi þennan heim of snemma.

Smelltu hér til að skrá þig

Staðreyndir um kynbundið ofbeldi

  • Ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur þurft að þola ofbeldi. Ein af hverjum fimm þurft að þola kynferðislegt ofbeldi.
  • 99,3 prósent kvenna og stúlkna á þéttbýlissvæðum í Egyptalandi hafa upplifað kynferðislega áreitni og um helmingur þeirra verður fyrir áreitni daglega.
  • 95 prósent kvenna í Nýju Delí á Indlandi finnst þær ekki öruggar á götum úti. 73 prósent þessara kvenna upplifa ekki einu sinni öryggi í sínu nánasta umhverfi.
  • Um 70 prósent íslenskra kvenna upplifa sig óöruggar í miðborg Reykjavíkur að næturlagi.

Mætum, dönsum og gefum ofbeldi fingurinn!

#fokkofbeldi