Miklar framkvæmdir á Egilsstöðum

Fljótsdalshérað mun í sumar standa fyrir framkvæmdum við fyrsta hluta af nýjum miðbæ á Egilsstöðum. Miklar framkvæmdir eiga sér nú stað beggja megin Fagradalsbrautar. Þá hefur ný kaldavatnslögn verið lögð meðfram Fagradalsbraut með talsverðu jarðraski.

Mestar framkvæmdir eru í miðbænum á Egilsstöðum og hefur gatan Kaupvangur nú þegar verið grafin upp að stórum hluta. Umferð hefur raskast af þessum sökum, og mun verða framhald á því í júní og júlí. Óhjákvæmilega fylgja þessum miklu jarðvegsframkvæmdum óþægindi fyrir íbúa í nágrenninu og vegfarendur.Hjáleiðir verða merktar og miðað er að því að framkvæmdir valdi sem minnstum umferðartöfum.
Helstu verkliðir í miðbænum eru breytt lega Miðvangs og tenging hans við Lagarás og breytt lega Lagaráss að Fagradalsbraut. Lagarás verður grafinn upp frá Fagradalsbraut að Miðvangi. Þá verður skipt út lögnum út Lagarásinn að Lagarási 16, upp Skjólbrekku að Selási og inn Selás að Fagradalsbraut. Nyrsti hluti Kaupvangs hefur verið grafinn upp og fær gatan nýja legu að hluta. Verkáætlun gerir ráð fyrir að götur verði orðnar greiðfærar í lok júlí. Verktaki beggja megin Fagradalsbrautar eru Jónsmenn ehf. Um er að ræða tvö stór útboðsverk, en Jónsmenn buðu lægst í bæði þessi verk.
Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdir við fyrsta hluta Striksins, göngugötunnar sem leggja á í miðbæ Egilsstaða, hefjist einnig í sumar með því að skipt verður um jarðveg í nyrsta hluta þess.