Mikil stemning á fundi um framtíðina

Það var mikil einbeiting og virkni á vinnufundi ráða, nefnda og deildastjóra Fljótsdalshéraðs sem haldinn var í síðustu viku.  Á fundinum voru til umfjöllunar ýmsar  grundvallarspurningar um framtíð Fljótsdalshéraðs, sem marka þarf stefnu um í aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nú er unnið að. 

Stefna Fljótsdalshéraðs sem samþykkt var á síðasta ári, byggir á þremur stoðum; þekkingu, þjónustu og velferð. Nú hefur fjórðu stoðinni, umhverfi, verið bætt við og á fundinum skilaði Starfshópur um Staðardagskrá 21 af sér tillögu að framsetningu hennar ásamt hugmyndum að verkefnum sem ráð og nefndir munu taka til umfjöllunar við gerð starfsáætlana á næstu vikum.
 
Meðal þess sem rætt var varðandi stefnumótun í aðalskipulagi, er að tengja þurfi betur saman þéttbýlið á Egilsstöðum og í Fellabæ. En vissulega takmarkist það af flugvellinum og Lagarfljótinu.  Margt muni ráðast af því hvort verði af lengingu flugvallar, en aukin tenging gerist líka með því að byggja upp íbúðarbyggð og þjónustu á báðum stöðum, þannig að meiri samgangur verði á milli.   Rætt var um dreifbýliskjarnana á Eiðum, Brúarási og í Hallormsstað og hvernig leita megi jafnvægis milli skógræktar og hefðbundins landbúnaðar.  Margir sjá sóknarfæri fyrir Fljótsdalshérað í enn frekari uppbyggingu ferðaþjónustu. Náttúruvernd, Vatnajökulsþjóðgarður og framsæknar leiðir í sorpmálum voru mál sem rædd voru í þeim anda að Fljótsdalshérað verði til fyrirmyndar á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar.