Í dag, fimmtudaginn 12. febrúar, opnar miðstöð fólks í atvinnuleit að Miðvangi 1 3, 2. hæð á Fljótsdalshéraði. Miðstöðin verður opin alla virka daga milli kl. 9.00 og 17.00. Verkefnið er tímabundið en þörfin fyrir slíka miðstöð verður endurskoðuð í maí 2009.
Það eru Fljótsdalshérað, Afl starfsgreinafélag, VR, Héraðs- og Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands, Þekkingarnet Austurlands, Vinnumálastofnun og Austurnet sem hafa gert með sér samkomulag um rekstur miðstöðvarinnar. Ofangreindir aðilar mynda stýrihóp um verkefnið undir forystu félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs. Markmiðið með rekstri miðstöðvarinnar er að bjóða íbúum Fljótsdalshéraðs sem eru í atvinnuleit eða þurfa á sértækri aðstoð að halda í kjölfar atvinnumissis upp á samþætta þjónustu m.a. í formi ráðgjafar og námskeiða.
Á fundi atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs 19. janúar síðastliðinn komu aðilar frá Þróunarfélagi Austurlands og Austurneti ehf. með tillögur sem varðaði frumkvöðlasetur og miðstöð atvinnulausra á Fljótsdalshéraði. Í þeirri tillögu sem Tjörvi Hrafnkelsson frá Austurneti kynnti fyrir nefndarmönnum segir að mikið hafi verið rætt að undanförnu um þær aðstæður sem eru að skapast í atvinnumálum í sveitarfélaginu. Forsvarsmenn Austurnets hafi fengið ýmsar tillögur að nýsköpun inn á borð til sín í kjölfar hrunsins og telji þeir að mikil þörf sé á miðstöð fyrir þá sem vilja skapa sér ný tækifæri, bæði til samráðs og til að hafa möguleika á því leita sér aðstoðar. Í tillögunni kom meðal annars fram staðsetning á miðstöðinni en í Miðvangi 1 3 á annarri hæð er laust 150 fm atvinnuhúsnæði sem hefur staðið ónotað í nokkurn tíma. Á þessum sama fundi kom Björk Sigurgeirsdóttir frá Þróunarfélagi Austurlands sem einnig er framkvæmdarstjóri Vaxtarsamnings Austurlands. Hún kynnti hugmyndir Vaxtarsamningsins um stuðning við uppbyggingu frumkvöðlasetra.
Á fundinum bókaði nefndin í kjölfar erinda Þróunarfélagsins og Austurnets að sveitarfélagið hafi lengi unnið að hugmyndum um uppbyggingu vísindagarða á Egilsstöðum þar sem meðal annars er gert ráð fyrir aðstöðu og þjónustu fyrir frumkvöðla og sprotastarfsemi. Þá taldi nefndin brýnt að málið yrði skoðað bæði með tilliti til framtíðaruppbyggingar Vísindagarðsins og til skamms tíma í tengslum við að koma upp aðstöðu fyrir atvinnulausa. Nefndin tók það fram að í því sambandi væri þörf fyrir að skoða samstarf við starfanadi aðgerðahópa vegna efnahagsástandsins þar sem meðal annars fulltrúar stéttarfélaga, Vinnumálastofnunar og fleiri sem ættu aðkomu að þeim. Með uppsetningu miðstöðvar fyrir atvinnulausa er verið að koma þessari hugmynd í framkvæmd að hluta til.
Atvinnulausir geta leytað sér ýmsar þjónustu sem meðal annars felst í ráðgjöf, þjónustu og námskeiðahaldi. Þá er gert ráð fyrir því að hægt verði að leita til félags og fjármálaráðgjafa á vegum sveitarfélagsins og náms og starfsráðgjafa á vegum Þekkingarnets Austurlands. Prestar Fljótsdalshéraðs koma til með að verða til taks og þá verða lögfræðingar með lögfræðilega ráðgjöf og fulltrúi AFLs Starfsgreinasambands verður tiltækur. Verið að kanna aðkomu fleiri aðila sem mögulega geta veitt aðstoð á öðrum sviðum. Tölvuver í eigu Austurnets verður til staðar fyrir þá sem þurfa að nýta sér það. Fljótsdalshérað hefur ráðið starfsmann af atvinnleysiskrá tímabilið 9. febrúar til 9. júní 2009, með tilstuðlan og fjárstuðningi Vinnumálastofnunar. Starfsmaður fer með daglega umsjón með húsnæði, búnaði og starfsemi sem fram fer í miðstöðinni. Starfsmaður tekur m.a. á móti fólki, skráir viðtöl, er til aðstoðar vegna námskeiðshalds, er til aðstoðar vegna atvinnusköpunar, sér um ræstingu og tengsl við Hlymsdali vegna aðstöðunnar þar.