Metaðsókn á 700IS

Undirbúningur fyrir vídeó- og kvikmyndahátíðina Hreindýraland 700IS er nú í fullum gangi. En hátíðin verður haldin frá 20. mars til 27. mars 2010 á Egilsstöðum og víðar á Austurlandi. Alls hafa borist 642 umsóknir um þátttöku í hátíðinni, frá 49 löndum, en þetta eru fleiri umsóknir en nokkurn tíman hafa borist.

Sýningastjóra og stjórnanda hátíðarinnar, Kristínu Scheving, ásamt sérstakri valnefnd, býður nú það verkefni að fara í gegnum allar umsóknirnar og velja þau verk sem hljóta munu peningaverðlaun, ferðastyrk og Alternative Routes verðlaunin. En síðast töldu verðlaunin eru til komin vegna samstarfs 700IS við aðrar sambærilegar hátíðir í Evrópu.

Valnefnd 700IS fyrir árið 2010 skipa þau Hrafnkell Sigurðsson, myndlistarmaður, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, verkefnastjóri hjá Listasafni Íslands, Þórunn Eymundardóttir, framkvæmdastjóri Skaftfells, Kristín Scheving, Íris Lind Sævars¬dóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri 700IS og Þórunn Hjartardóttir, tengiliður listamanna.

Í fréttabréfi hátíðarinnar kemur fram að nú þegar er búið að staðfesta þátttöku eftirtaldra listamanna á 700IS í mars. En þeir eru Steina (www.vasulka.org), Max Hattler (www.maxhattler.com), Norioka Okaku (www.norioka.net) og Johnny Chimbo (http://www.myspace.com/feedthechimp). Þá munu gestalistamenn frá Írlandi, Íslandi og Noregi sem dvelja munu á Austurlandi í vetur sýna verk á hátíðinni.

Óhætt er að segja að Hreindýraland 700IS fari sístækkandi með hverju árinu en um leið eru áherslur hátíðarinnar mismunandi frá ári til árs. Árið 2009 var áherslan lögð á innsetningar með vídeói og hljóði og var átta listamönnum þá boðið að koma til Egilsstaða og vinna í Sláturhúsinu. Þetta tókst mjög vel og verður hátíðin með svipuðu sniði á næsta ári auk þess sem boðið verður upp á bíósýningar á úrvali mynda auk innsetninga og gjörninga. Fullunnin dagskrá verður sett inn á vefsíðu hátíðarinnar www.700.is í febrúar 2010.