Í dag, fimmtudaginn 10. janúar verður haldinn opinn íbúafundur á Hótel Héraði, kl. 17-19, en fundurinn markar upphaf vinnu er miðar að mótun heildstæðrar menntastefnu fyrir Fljótsdalshérað.
Með menntastefnunni áformar sveitarfélagið að horfa heildstætt til alls skóla- og menntastarfs í sveitarfélaginu, hvort sem það er á ábyrgð sveitarfélagsins eða annarra. Menntastefnan byggir á áherslum í almennri stefnu sveitarfélagsins en hún gerir m.a. ráð fyrir að Fljótsdalshérað verði þekkingarsamfélag. Stefnu Fljótsdalshéraðs má finna hér.
Það er sveitarfélaginu kappsmál að vel takist til og að stefnan eigi þátt í að leggja grunn að framsækinni og metnaðarfullri menntastarfsemi í sveitarfélaginu til framtíðar. Lögð er áhersla á að stefnan marki sérstöðu sveitarfélagsins sem sveitarfélags í forystu í skóla- og menntamálum.
Á fundinum í dag verður stefna sveitarfélagsins og tengsl menntastefnunnar við hana kynnt auk þess sem fundarmönnum gefst tækifæri til að koma sínum hugmyndum og ábendingum á framfæri við þá sem munu leiða stefnumótunarvinnuna.
Sérstakur stýrihópur hefur verið valinn til að stýra vinnu við mótun menntastefnunnar og Hrönn Pétursdóttir hefur tekið að sér að leiða vinnuna.