Menningarráð Austurlands úthlutar styrkjum

Menningarráð Austurlands úthlutaði þann 25. febrúar styrkjum til ríflega 65 menningarverkefna á Austurlandi, samtals að upphæð 23 milljónum króna. Hæstu styrkir námu einni milljón króna en þeir lægstu 100 þúsund krónum. Alls bárust menningarráðinu 135 styrkumsóknir að þessu sinni. Þetta er í tíunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi ríkis og sveitarfélaga en fyrsta úthlutun fór fram árið 2002.

Af umsóknum og úthlutunum í ár má ráða hve fjölbreytt og blómlegt lista- og menningarlíf er á Austurlandi, allt frá Vopnafirði og suður í Öræfi, segir í fréttatilkynningu frá menningarráðinu. Sérstaklega er sýnileg nýsköpun og gróska í starfsemi sem viðkemur vídeólist og kvikmyndun og hljóta mörg slík ný verkefni styrk í ár.
Sérstaka athygli vekur einnig hversu margir ungir listamenn á Austurlandi sækja um
stuðning til verkefna sem þeir ætla að hrinda í framkvæmd.

Í fréttatilkynningu menningarráðsins segir einnig: Mikilvægt er að fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sjái tækifæri í að efla samstarf við listamenn á Austurlandi nú á tímum atvinnuleysis og þrenginga á vinnumarkaði. Menning og listir auðga samfélagið. Auk þess hafa listamenn lengi verið helstu hugmyndasmiðir í nýsköpun hvers konar og komið að gerð nýrrar vöru og vöruflokka. Menningarráð Austurlands telur mikilvægt fyrir uppbyggingu í fjórðungnum að fá listamennina í aukið samstarf á sem flestum sviðum, ekki bara til að auðga menningarlífið heldur ekki síður til að efla nýsköpun.

Eftirfarandi verkefni hlutu styrk frá Menningarráði Austurlands að þessu sinni:

1.000.000 Leikhópurinn Fidget Feet Aerial Dance Theatre frá Írlandi. Hópurinn kennir „aerial theatre“ eða loftfimleika leiklist og dans fyrir börn og fullorðna auk þess að sýna verkið „Madam Silk“ á Austurlandi og víðar. Heimsóknin er á vegum Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs.

1.000.000 LungA listahátíð ungs fólks á aldrinum 16 - 25 ára. 10 ára afmæli með fjölda af listasmiðjum auk fjölbreyttra listsýninga. Einstök hátíð sem gefur ungu fólki kost á að vinna með þekktum listamönnum að listsköpun auk þess að njóta sköpunar þekktra og minna þekktra listamanna í samfélagi við annað ungt fólk víða að af landinu og erlendis frá.

900.000 Þrjú tónlistarverkefni á vegum Kirkju- og menningarmiðstöðvarinnar í Fjarðabyggð. Barnakóramótið, Raddir framtíðarinnar. Tónlistarnámskeiðið, Allt sem þú vildir vita um klassíska tónlist en þorðir ekki að spyrja og Söngdíva úr austurvegi í fylgd tregahorns og slaghörpu sem er samstarf Einars Braga, Kára Þormars og Alexöndru Chernyshovu.

900.000 700is Hreindýraland – Alþjóðleg kvikmynda- og vídeóhátíð á Austurlandi. Hátíðin hefur verið sett upp árlega frá árinu 2005 og er nú í stóru Evrópusamstarfisverkefni þar sem unnið er með Portúgal, Ungverjalandi og Bretlandi. 76 verk voru valin í ár úr 642 innsendum verkum sem bárust frá 49 löndum.

800.000 Aðventutónleikar Kórs Fjarðabyggðar. Samtarf við þekkta klassíska söngvara, dægursöngvara sem og annað tónlistarfólk víða af landinu. Samkeppni um nýtt jólalag meðal einstaklinga búsettum eða ættuðum af Austurlandi. Skipuleggjandi er Kór Fjarðabyggðar.

700.000 Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi með áherslu á heimamenn og landsþekkta listamenn. Elsta jazzhátíð á Íslandi, nú haldin í tuttugasta og þriðja sinn og löngu heimsþekkt.

600.000 Eggin í Gleðivík. Merkingar og frágangur á listaverkinu Eggin í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson á Djúpavogi.

600.000 Mupimup. Ný hönnun á vöru sem fellur undir Ecodesign og Upcyling. Ljósa-, textíl- og húsgagnahönnun þar sem unnið er úr efniviði sem lokið hefur sínu hlutverki en hönnuðirnir vekja hann til lífs á ný með skapandi umbreytingu. Rósa Valtingojer og Zdenek Patak.

500.000 Söguslóð á Suðausturlandi. Klasaverkefni aðila í menningar- og ferðaþjónustu á Suðausturlandi í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörð og Djúpavogshrepp. Árið 2010 verður unnið með Njáluslóðir á Suðausturlandi, málþing o.fl.

500.000 Sumarsýning Skaftfells á Seyðisfirði. Þrjár kanónur mynda sumarsýninguna og þeir eru: Birgir Andrésson, Tumi Magnússon og Romar Signer. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að hafa heillast af Seyðisfirði og eiga þar fasteign.

500.000 Á slóðum Vopnfirðingasögu. Uppbygging menningartengdrar ferðaþjónustu á Vopnafirði. Tengja á saman sögu og menningu í samvinnu við miðstöðvar sviðslista og myndlistar á Austurlandi þar sem ungir listamenn verða virkjaðir til þátttöku í vinnu með heimamönnum.

500.000 Tónlistarbærinn Neskaupstaður 2010. Samstarfsverkefni BRJÁNS og Egilsbúðar og er markmiðið að halda tónleika hvern dag allt næsta sumar. Um er að ræða tónleika í öllum geirum tónlista, þ.e. klassík, jass, blús, popp og rokktónlist.

500.000 Minjasafn Austurlands. Þrjú verkefni. Uppsetning sýningar á Sómastöðum í Reyðarfirði, upplýsingaskilti við Þórarinsstaði í Seyðisfirði og Snertisafn, munir á safni sem gestir geta snert og handfjatlað.

500.000 Vesturveggurinn / Bókabúðin. Sýningar í bland við gjörninga, fyrirlestra og námskeið sem og aðrar uppákomur fyrir yngri kynslóð myndlistarmanna. Skaftfell miðstöð myndlistar á Austurlandi.

400.000 Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks haldin á Austurlandi í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Ritun þriggja leikverka og undirbúningur fyrir Þjóðleikshátíðina 2011.

400.000 Sumartónleikar Bláu Kirkjunar sumarið 2010. 8 tónleikar unnir af faglegum metnaði líkt og síðustu 11 ár.

400.000 Hammondhátíð á Djúpavogi. Hátíðinni er ætlað að kynna Hammondorgelið, tónlist þess og tónlistarmenn sem því tengjast. Hátíðin er nú haldin í fimmta sinn.

400.000 Vetrarhátíð í ríki Vatnajökuls. Hátíð þar sem áhersla er lögð á að listssköpunin sé innblásin af þeirri náttúru sem er að finna í ríki Vatnajökuls.

400.000 Bræðslan 2010. Tónlistarhátíðin Bræðslan haldin í sjötta sinn í gamalli bárujárnsskemmu á Borgarfirði eystra.

400.000 Listsýning Gunnlaugs Scheving. Sýning á verkum Gunnlaugs í Kirkju- og menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð.

400.000 Menningarnefnd Vopnafjarðar, tvö verkefni. Dans-, leik-, og tónsmiðja og Skálda- og sagnakvöld á menningarhátíðinni Einu sinni á ágústkvöldi.

400.000 Vetrarstríð. Stuttmynd sem gerist í austfirskri sveit um 1970. Hlynur Pálmason.

400.000 Uppskrift að uppruna. Kvikmyndir sem fjalla um ferli matvælaframleiðslu á Austurlandi. Karna Sigðurðardóttir og Sebastian Ziegler

400.000 vegaHúsið, tvö verkefni. Ungmennatónleikarnir vegaReiði 2010 og námskeið í hljóðupptöku, útvarpsnámskeið o.fl.

300.000 Eistnaflug. Rokkhátíð í þyngri kantinum, haldin í sjötta sinn í Neskaupstað.

300.000 The Night Cap. Teiknimynd Guðjóns Braga Stefánssonar byggð á þjóðsögunni „Draugahúfan“.

300.000 Minjasafnið á Bustafelli. Hönnun minjagripa tengd sögu staðarins og námskeið til að viðhalda þekkingu á vinnslu úr hrosshári.

300.000 Fjallasýn. Myndlistarsýning á Skriðuklaustri og Hala með þjóðlegu ívafi og heimspekilegum vangaveltum um það hvernig og hvers vegna viðhorf okkar Íslendinga hafa breyst til hálendisins. Gunnarsstofnun og Þórbergssetur.

300.000 Tónlistarstundir sumarið 2010. Sex tónleikar þar sem lögð er áhersla á að kennarar og lengra komnir nemendur í listinni sem búa á Austurlandi eða eru tengdir svæðinu fá tækifæri til að koma fram. Egilsstaðakirkja og fleiri.

300.000 Bæjarmyndir. Heimildarmyndir um einyrkja og lítil fyrirtæki á Seyðisfirði tengd fræðslu, menningu og listum. Kári Gunnlaugsson.

300.000 Sýning á handgerðum munum úr íslenskum við. Munirnir eru m.a. endurgerð á íslenskri nytjalist sem varðveitt er á söfnum víða um land, auk barnaleikfanga og fleira frá fyrri tíð. Snjólfur Gíslason.

300.000 Hernámsárin á Reyðarfirði. Hátíð til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að breskur her steig á landi á Reyðarfirði. Söngleikur og fleira skipulagt af Leikfélagi Reyðarfjarðar, Kór Reyðarfjarðarkirkju og fleirum.

300.000 Árleg hönnunarsýning á hönnun og listiðnaði eftir austfirsk listafólk. Búa til árlegan vettvang til þess að listafólk á sviði hönnunar og listiðnaðar geti sýnt í heimabyggð. Umsjónaraðili er Þorpið.

300.000 Tónlistarsumarbúðir á Eiðum. Sumarbúðir Suncönu Slamning, þar sem blandað er saman tónlist, sköpun og útivist.

300.000 Karnival á Austurlandi. Áframhaldandi uppbygging á austfirsku karnivali með áherslu á álfaþema í samstarfi við aðila á Borgarfirði Eystri. Lára Vilbergsdóttir.

300.000 Aðventusýning Skaftfells – Björn Roth. Björn lýkur ferli sínum sem sýningarnefndarformaður og listrænn stjórnandi Skaftfells með þessari sýningu.

300.000 Myndlistarnámskeið fyrir erlendar listaakademíur með Dieter Roth akademíunni. Tveir hópar í mastersnámi í myndlist frá erlendum listaakademíum dvelja í tvær vikur á Seyðisfirði á vegum Skaftfells miðstöð myndlistar.

300.000 Cinema Maximus. Samstarfsverkefni nokkurra aðila sem snýr að kvikmyndagerð á Austurlandi. Námskeið á Eiðum í öllum tæknimálum sem lúta að kvikmyndagerð í samstarfi við Kvikmyndskóla Íslands.

300.000 Grýlugleði 10 ára. Þjóðleg skemmtun í samstarfi við ýmsa aðila. Nú verður gefið út rit um austfirsk Grýlukvæði, teiknisamkeppni á landsvísu fyrir börn í 7. bekk og fleira.

300.000 Kjuregej Alexandra Argunova / List án landamæra. Myndlistarsýning, -námskeið og útgáfutónleikar.

300.000 Tónlistartengsl/The Music Engine. Koma á tengslaneti tónlistarmanna á Austurlandi, Íslandi og víða um heim. Sigurður Páll Árnason.

300.000 Bókverk – Fljótið og hringurinn. Sýningin Fljótið og hringurinn sett í bók. Ólöf Björk Bragadóttir.

200.000 Tónleikar í Kálfafellsstaðarkirkju og sýning í Þórbergssetri. Tónleikarnir og sýningin tengist sögu Ólafs helga Noregskonungs en Kálfafellsstaðarkirkja er helguð honum.

200.000 Einsöngstónleikar Þorsteins Helga Árbjörnssonar og Janett Zilioli í Kirkju- og menningarmiðstöðinni Fjarðabyggð

200.000 Norðurljósablús 2010 haldið af Hornfirska skemmtifélaginu.

200.000 Tónleikar Kammerkórs Austurlands. Tónleikar á vori og hausti 2010 undir stjórn Kára Þormars.

200.000 Sögusýning um Alþýðuskólann á Eiðum. Uppsetning á sögusýningu um Alþýðuskólann í umsjón Eiðavina.

200.000 Ásgeir Emilsson – líf og list alþýðulistamannsins Geira. Ætlunin er að koma verkum Geira fyrir almenningssjónir sem löngu er orðið tímabært. Samstarf Skaftfells, Tækniminjasafns og ættinga Geira.

200.000 Nemendasýning LHÍ og Dieter Roth Akademíunnar 2010. Samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Skaftfells.

200.000 Ljóðaljós, sýning í gömlu Kartöflugeymslunni á Höfn. Sýnd verða verk Guðrúnar Ingólfsdóttur ásamt upptökum af valinkunnum Hornfirðingum flytja sín kærustu ljóð eða frásagnir.

200.000 Flóðgarður, stuttmynd byggð á sögu Guðmundar Vestmann. Ungir listamenn vinna saman undir stjórn Guðmundar.

200.000 Leikritið Sigrún Ástrós, gamaneinleikur eftir Willy Russel. Guðjón Sigvaldason.

200.000 Helgi á Göngu. Göngu og menningardagar á Borgarfirði eystri og Víkum til að heiðra minningu Helga Magnúsar Arngrímssonar. Ásgrímur Ingi Arngrímsson.

200.000 Möðrudalsgleði/Menningarnótt á Fjöllum. 100 manna tónleikar í tónleikasal öræfanna o.fl. Vilhjálmur Vernharðsson

200.000 Krísa – Leiklistarstarf 12-16 ára unglinga á Seyðisfirði. Uppsetning á „Galdrakarlinum í Oz“.

200.000 Undir Hornafjarðarmána. Landsbyggðarráðstefna í samstarfi Háskólaseturs á Hornafirði, Sagnfræðifélags Íslands ofl.

200.000 Fræða- og sagnaþing um snjóflóðin í Neskaupstað 1974. Þriggja daga ráðstefna og sagnaþing með ljósmyndasýningu og fleiru. Jón Hilmar Kárason og Jón Knútur Ásmundsson.

150.000 Einsöngstónleikar Vígþórs Sjafnar Zophoníassonar.

150.000 Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF með viðkomu á Austurlandi.

100.000 Alþjóðlegi Tónlistardagurinn á Austurlandi. Samstarf Elzbiétu Arsso-Cwalinsku og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs

100.000 Randverskvöld – skemmtikvöld með Ellert Borgari og Randúlfunum. Haldið í Randólfssjóhúsi á Eskifirði.

100.000 Sýning til að sýna afrakstur listamannadvalar í Vesterålen í Noregi árið 2009. Sandra Mjöll Jónsdóttir.

100.000 Ævintýralandið / Ævintýradagar. Leikhópurinn Lopi. Leiksýning fyrir börn á öllum aldri.

100.000 Desperate Silence. Sólóplata Bjartar Sigfinnsdóttur með átta lögum og textum eftir hana sjálfa.

100.000 Bragfræðinámskeið á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi.