Menningarhús: Samningur undirritaður

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshér…
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, undirrita samning um stofnframlag til byggingar menningarhúss á Egilsstöðum.

Ný burst rís við safnahúsið á næstu árum samkvæmt samningi sem undirritaður var við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í gær. Þá verður aðstaðan í Sláturhúsinu einnig bætt.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, undirrituðu samkomulagið sem felur í sér stofnframlag til byggingar menningarhúss á Egilsstöðum. Málið á rætur að rekja til ársins 1999 en þá ákvað þáverandi ríkisstjórn að fé skyldi lagt í menningarhús á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Uppbyggingu er enn ólokið á Egilsstöðum og Sauðárkróki. Upphaflegar hugmyndir gerðu ráð fyrir að nýtt menningar- og stjórnsýsluhús myndi rísa í miðbæ Egilsstaða en horfið var frá þeim hugmyndum þar sem ljóst þótti að mikill kostnaður hefði fallið á sveitarfélagið. Þess í stað var ákveðið að fara svipaða leið og gert var á Ísafirði en þar voru þrjú hús tekin undir starfsemi menningarhúss.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að stofnframlaginu verði varið til uppbyggingar menningarhúss í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi sem rúma skuli m.a. sviðslistir, tónlist, sýningar og vinnustofur. Einnig verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost og sýningar auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf. Markmið samkomulagsins er að framangreindar byggingar verði ekki einungis vettvangur menningar- og safnastarfsemi á Fljótsdalshéraði heldur að þær gegni einnig lykilhlutverki sem slíkar á Austurlandi.