- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 14. október 2016 tillögu Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra um gerð viljayfirlýsingar um áframhaldandi samstarf um undirbúning og fjármögnun að byggingu menningarhúss á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði.
Í janúar 1999 kynnti þáverandi ríkisstjórn áform sín um að stuðla að byggingu menningarhúsa á Akureyri, Fljótsdalshéraði, Ísafirði, Norðvesturlandi og Vestmannaeyjum. Á Ísafirði varð samkomulag um að þrjú hús yrðu tekin undir starfsemi menningarhúss, þ.e. Edinborgarhúsið, tónlistarsalur við Tónlistarskólann og Gamla sjúkrahúsið fyrir skjalasafn og listasafn. Endurbótasjóður menningarbygginga stóð að mestu fyrir hlut ríkisins. Ríkið veitti fé til byggingar Hofs á Akureyri og Eldheima í Vestmannaeyjum af hluta þess andvirðis sem fékkst fyrir sölu Símans. Hugmyndir um byggingu menningarhúss á Sauðárkróki eru til athugunar, en hluti þess var endurnýjun á Miðgarði í Skagafirði sem þegar hefur átt sér stað.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélagið Fljótsdalshérað hafa nú staðfest vilja sinn til áframhaldandi samstarfs um undirbúning og fjármögnun að byggingu menningarhúss í Fljótdalshéraði. Annars vegar er gert ráð fyrir uppbyggingu menningarhúss í Sláturhúsinu sem verði gert að fjölnota menningarhúsi fyrir sviðslistir, tónlist, sýningar, vinnustofur, ungmennastarf auk gestaíbúðar fyrir listamenn. Hins vegar verði reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verði til að bæta aðstöðu fyrir safnkost, sýningar og til fyrirlestrarhalds, auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf.
Viljayfirlýsing varðandi áframhaldandi samstarf um undirbúning og fjármögnun var undirrituð á Egilsstöðum af mennta- og menningarmálaráðherra og bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs sunnudaginn 16. október 2016.