Menning og umhverfi hugleikið nemendum Tjarnarlands

Menning, samfélag og umhverfi var þema haustannar í leikskólanum Tjarnarlandi eins og undanfarin ár. Í haust hafa nemendur unnið á margvíslegan hátt með þetta efni og skipaði  samstarf við eldri borgara þar ákveðinn sess. Meðal annars var unnið með Egilsstaði fyrr og nú og fóru eldri borgarar með nemendum í sögugöngur um gamla hverfið og sögðu þeim frá lífi og starfi fólksins þegar þorpið var að byggjast. Á öllum deildum voru úbúin stór götukort af bænum þar sem merkt voru inná heimili nemenda og helstu byggingar bæjarins, bæði gamlar og nýjar. Í þemanu var einnig unnið með tákn í skjaldarmerki Fljótsdalshéraðs, þjóðsögur sem tengjast svæðinu og það náttúru- og dýralíf sem einkennir svæðið. Farið var í vettvangsferðir um bæinn og út í náttúruna og gott samstarf var við Safnahúsið.

Nemendur unnu síðan og túlkuðu upplifun sína á fjölbreyttan og skapandi hátt m.a. í gegnum myndlist, kubba, tónlist, sögu- og ljóðagerð. Afraksturinn mátti sjá á sýningu sem sett var upp fyrir foreldrakaffi í byrjun desember. Það voru stoltir nemendur sem gengu um með foreldrum sínum og sögðu frá þemaverkunum. Má segja að þemalok séu nú um miðjan desember þegar nemendur fara í jólakakó á gamla Gistihúsið á Egilsstöðum. Þangað hefur elstu nemendum Tjarnarlands verið boðið í jólakakó í mörg ár og hafa eigendur boðið upp á skemmtilega jóladagskrá. Sagt er frá sögu hússins í stuttu máli og allir fá að læðast inn á eitt hótelherbergið og finna þar sofandi jólasvein.

Í sögunni sem fylgir með þessari grein má sjá hvað það er sem þessir ungu nemendur hafa veitt mesta athygli í þemaverkefnum haustsins. Snæfell fangaði hugi þeirra í einni gönguferðinni þar sem það skartaði sínu fegursta í suðrinu og umræður um náttúru- og dýralíf sem fylgdu í kjölfarið vöktu einnig áhuga þeirra. Nemendur flétta skemmtilega inn í söguna persónu sem tilheyrir fortíð Egilsstaða, en þeir fengu að heyra um hana í einni sögugöngunni. Í sögunni láta nemendur fortíð og nútíð mætast með fallegri giftingarathöfn upp á Snæfelli. 


SNÆFELLSDÝRASAGA
Einu sinni fyrir langa löngu þá var haust og veturinn var alveg að koma. Fuglarnir voru að safnast saman og blómin voru byrjuð að deyja. Í Snæfelli bjuggu mörg dýr. Það voru refir, fuglar, ísbirnir, hreindýr og kindur með lömb.

Þennan dag voru Steinþór listmálari og Monika sem bjuggu í Selbrekku á Egilsstöðum að gifta sig á Snæfelli. Þau fóru líka að tína ber og blóm. Steinþór fékk tár í augað af því hann var svo glaður að gifta sig á Snæfelli og af því hann var að eignast svo góða konu. Öll dýrin  í Snæfelli voru í giftingunni, þau þurftu að mæta í giftinguna kl. tvö. Það var bjart og sól og fuglarnir flugu um himininn. Stóra hreindýrið var presturinn sem gifti þau. Fuglarnir voru í kórnum og sungu og tístu giftingarlag. Hreindýrin trommuðu undir með hornunum í steinana, ísbirnirnir slógu saman steinum og refirnir sýndu dans í veislunni. Það var jarðarberjakaka, súkkulaðikaka og hvít rjómagiftingarkaka í veislunni, salat og hjónabandsæla og allskonar veitingar.

Allt í einu fór jörðin að skjálfa, það var kominn jarðskjálfti á Snæfelli. Allir fóru að flýja. Steinþór bað hreindýrin um að fylgja sér niður. Steinþór fór á bakið á hreindýrinu og hélt í hornin og Monika sat fyrir aftan hann og hélt í öxlina á honum. Hreindýrið hljóp rosalega hratt niður fjallshlíðina og dýrin hlupu líka rosa hratt niður. Nema refirnir sem földu sig í greninu og settu síðan prik og laufblöð fyrir grenið. Einn refur datt á hvolf.

Þegar Steinþór og Monika komu niður földu þau sig í urðinni og settu steina fyrir af því nú var byrjað að gjósa upp á Snæfelli og hraunið rann niður fjallið. Það rann yfir blómin í urðinni svo þau dóu.  Eitt hreindýr og einn ísbjörn brenndust í eldgosinu. Snæfell gaus i þrjá daga, svo kom rigning og þá hætti að gjósa. Þá tóku Steinþór og Monika steinana frá í urðinni og fóru svo heim að borða og hvíla sig. Í urðinni borðuðu þau ber, hundasúrur, sykurblóm og hunang frá hunangsflugum. Þau drukku líka hreint vatn úr ánni. Steinþór var með tvö glös og mjólk í bakpokanum sínum og gaf Moniku mjólk að drekka. Steinþór málaði margar myndir af fjöllum og líka blómamynd handa Moniku.
Köttur út í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.

Höfundar: Hólmfríður Ósk, Ísey Helga, Jóhanna Lilja, Katla Margrét, Kristín Matthildur, Monika Lembi, Móeiður, Sunneva Eldbjörg, Þorgerður Sigga.