Meistarahópur Hattar deildarmeistarar

Hattarstúlkur sóttu deildarmeistartitil til Akureyrar. Síðasta mót vetrarins í 1. deild í hópfimleikum fór fram um síðustu helgi á Akureyri. Höttur og Stjarnan í Garðabæ voru jöfn að stigum fyrir mótið og lokamótið því hörkuspennandi. Höttur hafði betur því liðið sigraði á öllum áhöldum á lokamótinu og varð deildarmeistari. Liðið hefur staðið sig einkar vel í vetur og fyrr í vetur urðu stúlkurnar Íslandsmeistarar í gólfæfingum. Stúlkurnar í liðinu hafa æft hjá fimleikadeild Hattar frá unga aldri og margar þeirra eru þjálfarar hjá deildinni.

Árangur vetrarins

Í vetur tóku þrjú lið frá fimleikadeild Hattar þátt í öllum mótum vetrarins. Liðin kepptu í 1.deild Fimleikasambands Íslands og hafa ekki svo mörg lið tekið þátt í deildinni frá Hetti áður. Öll liðin frá Hetti hafa komist á verðlaunapall á mótum í vetur.

Fjölmenni á Vormóti FSÍ Akureyri

Á þetta síðasta mót vetrarins fóru 63 keppendur, 7 lið frá fimleikadeildinni. Þar af voru 4 lið að keppa í fyrsta sinn, börn á aldrinum 9-12 ára. Tvö liðanna voru skipuð drengjum og tvö skipuð stúlkum. Nýju keppendurnir stóðu sig vel á sínu fyrsta móti og voru sér og öðrum til sóma.