Meðan fæturnir bera mig

Hlaupararnir fjórir sem eru að hlaupa hringinn í kringum landið til að safna áheitum fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna komu til til Egilstaða í gær eftir að hafa hlaupið frá Djúpavogi um Öxi. Ferðalagið hófst 2. júní og er hægt er að fylgjast með GPS staðsetningu hópsins á heimasíðu þeirra www.mfbm.is.

Bæjarstjóri, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs tóku á móti hlaupurunum á Öxi, buðu þá velkomna, og færðu þeim gjafir sem framleiddar eru á Héraði,  mjólkur- og hreindýraafurðir, sultur, kex og síróp.

Nokkur börn úr Hallormsstaðaskóla hittu hlauparana í Skriðdal og hlupu með þeim nokkurn spöl og einnig komu hlaupagikkir frá Egilsstöðum og sprettuðu með þeim á leiðinni frá Öxi til Egilsstaða. Áheitahópurinn hvíldi sig á Egilsstöðum í nótt og stefnir á Möðrudal í dag en hlaupaveður er heldur leiðinlegt. Rigning, vindur og samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru hálkublettir á veginum um Möðrudalsöræfi, nokkur vindur og hiti undir frostmarki.