Markaðssamstarf hjá Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð

Sveitarfélögin Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað hafa ákveðið að vinna sameiginlega að kynningu sveitarfélaganna sem valkost til þeirra leyfishafa sem vinna munu að rannsóknum, tilraunaborunum og vinnslu á Drekasvæðinu.

Hefur sameiginlegum starfshópi verið komið á fót, samkvæmt samkomulagi sem sveitarfélögin hafa gert með sér um samstarfið, og honum falið að meta hversu vel þau eru í stakk búin að þessu leyti. Verða innviðir rýndir með hliðsjón af veikleikum og styrkleikum hvors sveitarfélags, allt frá nærsamfélagsþjónustu, samgöngum og viðgerðar- og viðhaldsþjónustu að húsnæði, gistingu og afþreyingarmöguleikum. Niðurstöðurnar munu nýtast í kynningar- og markaðssamstarfinu ásamt frekari stefnumótun á vegum sveitarfélaganna.

Starfshópinn skipa bæjarstjórarnir Björn Ingimarsson og Páll Björgvin Guðmundsson ásamt Birni Inga Knútssyni, Steinþóri Péturssyni og Sævari Guðjónssyni, sem skipaðir eru af Fjarðabyggð. Fyrir Fljótsdalshérað skipa þau  Ágústa Björnsdóttir, Eyrún Arnardóttir og Óðinn Gunnar Óðinsson starfshópinn.

Mynd: Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, við undirritun samkomulagins um markaðssamstarf sveitarfélaganna.