Margir þátttakendur í Vasagöngunni af Héraði

Ellefu einstaklingar frá Fljótsdalshéraði taka þátt í Vasa-gönguvikunni í Svíþjóð að þessu sinni. En nú um nokkurt árabil hefur hópur skíðagöngukappa af Héraði tekið þátt í henni. Frumkvöðull að þessum ferðum var Hjálmar Jóelsson lyfsali.
Á morgun, laugardag, er dagur kvenna en þá leggja þrjár konur frá Fljótsdalshéraði af stað í 30 km kvennagöngu. Á sunnudaginn og mánudaginn, 1. Mars, er svo kallað „opið spor“, en þá eru gengnir 90 km án þess að keppni fari fram. Þriðjudaginn 2. mars er boðið upp á 45 km göngu en á sunnudaginn 7. mars er komið að hinni eiginlegu Vasagöngu sem er hápunktur gönguvikunnar. Fljótsdalshérað á fulltrúa í öllum þessum göngum.
Á vefsíðu, http://vasa.thorarinn.com/, sem Þórarin Stefánsson heldur úti, er hægt að fylgjast með framvindu göngunnar hjá hverjum þátttakenda af Héraði, meðan á skíðagöngunni stendur. Inni á síðunni er netfang sem má nota til þess að senda skíðaköppunum kveðjur og hvatningu. Á vefsíðunni er einnig að finna leiðarlýsingu Vasagöngunnar og tengillinn http://www.svd.se/sportspel/Skidor/Vasaloppet/vasaloppsgrafik/ setur leiðarlýsinguna fram á skemmtilega myndrænan hátt.

Töluverður og vaxandi áhugi hefur verið á skíðagöngu á Héraði. Þannig hafa Snæhérarnir, sem eru félagsskapur áhugafólks um skíðagöngu á Fljótsdalshéraði, í vetur og undan farin ár haft forgöngu að leggja gönguskíðaspor þegar aðstæður leyfa, annað hvort í Selskógi eða við skíðaskála Snæhéra á Fjarðarheiði.