Margir sækja viðburði í Sláturhúsið

Nú er sá tími sem víða er notaður til að gera upp síðasta ár. Það hafa þau gert í Sláturhúsinu – menningarsetur á Egilsstöðum, en þangað voru heimsóknir á ýmsa viðburði um ellefu þúsund árið 2009.  Frá því í febrúar á síðasta ári hafa gestir Sláturhússins verið taldir og reynt að gera greinarmun á því hvort þeir eru gestir Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, vegaHÚSSINS, sem hafa þarna aðstöðu, eða Sláturhússins sjálfs. 

Samkvæmt þessu gestabókhaldi starfsfólks í Sláturhúsinu voru heimsóknir alls í vegaHÚSIÐ um 3.750, sem gerir um 340 heimsóknir þá mánuði sem talið var, en starfsemi vegaHÚSSINS, sem er miðstöð ungs fólks, er opin virka daga milli kl. 14 og 22. Upphaflega voru strákar í miklum meirihluta en frá apríl hefur stígandinn verið jafn og þéttur og nú er ekki mælanlegur munur á fjölda milli kynja.

Á viðburði Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Sláturhússins mættu um 6.270 gestir. Um helmingur þeirra sóttu sýningar Þjóðleiks sem fram fór í apríl og sumarsýningarinnar Testosterone í júní og júli og á Handverk og hönnun og ljósmyndasýningu Höllu Eyþórs sem fram fór í ágúst.