Mannabreytingar í nefndum

Talsverðar breytingar urðu á skipan í nefndir og ráð Fljótsdalshéraðs á síðasta bæjarstjórnarfundi.

Baldur Pálsson hefur verið ráðinn slökkviliðsstjóri sameinaðs slökkviliðs Vopnafjarðarhrepps, Borgarfjarðarhrepps, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps og Djúpavogshrepps og því vildi því létta af sér öðrum störfum. Hann hættir í bæjarráði en situr áfram í bæjarstjórn og tekur sæti í skipulagsnefnd. Jónína Rós Guðmundsdóttir lætur af formennsku og setu í skipulagsnefnd en verður formaður bæjarráðs og Fjárafls. Árni Kristinsson, sem hefur verið varamaður í skipulagsnefnd, skiptir við Sigurð Ragnarsson á aðal- og varamannssæti, jafnframt því sem hann tekur við formennsku nefndarinnar. Þá verður Árni, sem formaður skipulagsnefndar, tengiliður hennar við miðbæjarhópinn. Margét Hákonardóttir sagði af sér öllum nefndarstörfum fyrir sveitarfélagið í lok síðasta árs. Íris Randversdóttir tekur við hluverkum hennar sem formaður jafnréttisnefndar og varamaður í menningarnefnd. Þá hefur Margrét Árnadóttir flutt tímabundið úr sveitarfélaginu og var Guðmundur Ólason kjörinn í stað hennar sem varamaður í dreifbýlis- og hálendisnefnd. Guðmundur Kröyer hefur hafið störf hjá Alcoa og hefur því að nokkru dregið sig út úr nefndarstörfum. Guðmundur Ólafsson tekur í hans stað að sér formennsku í miðbæjarhópnum.