Málefni fatlaðs fólks til sveitarfélaga um áramótin

Um næstu áramót færast málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaganna á Íslandi. Um leið verða svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra lagðar niður. Markmiðin með tilfærslu þjónustu við fatlaða eru, eins og segir í samningi ríkis og sveitarfélaga frá 23. nóvember 2010, að a) bæta þjónustu og auka möguleika til að laga hana að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum, b) stuðla að samþættingu nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, c) tryggja að eitt stjórnsýslustig beri ábyrgð á stærstum hluta almennrar félagsþjónustu, bæta samhæfingu og draga úr skörun ábyrgðarsviða stjórnsýslustiga, d) tryggja góða nýtingu fjármuna, e) styrkja sveitarstjórnarstigið, f) einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Fyrir Alþingi liggur nú til umræðu og samþykktar frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra. Gagnrýnt hefur verið hversu seint það er fram komið, en samkomulag um fjárhagslegar forsendur tilfærslunnar, milli ríkis og sveitarfélaga, lá fyrir um mitt ár. Engu að síður, með samþykkt frumvarpsins mun ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar við fatlað fólk, flytjast til sveitarfélaganna og þau þar með bera ábyrgð á gæðum hennar og kostnaði. Með því að hafa þjónustuna á einni hendi, í þessu tilfelli hjá sveitarfélögunum, er dregið úr hættu á því að hin svokölluðu gráu svæði séu til staðar, en þau verða alltof oft til þar sem ríki annars vegar og sveitarfélög hins vegar vísa hvort á annað varðandi þjónustu.

Til að mæta þeim kostnaði sem af yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélaganna hlýst, er sveitarfélögunum veitt heimild til að hækka útsvarsprósentu sína um 1,2%, auk þess sem gert er ráð fyrir sérstöku fjármagni á fjárlögum ríkisins. Ekki er hins vegar um hækkun á heildarsköttum einstaklinga að ræða, þar sem tekjuskattur er lækkaður á móti, heldur er hér á ferðinni tekjutilfærsla frá ríki til sveitarfélaga.

Í vor komu sveitarfélög á Austurlandi sér saman um það að öll sveitarfélögin átta stæðu saman að þjónustusvæði um málefni fatlaðra. Enda er gert ráð fyrir að hvert þjónustusvæði samanstandi af ekki færri en átta þúsund íbúum. Um leið er gert ráð fyrir að Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð verði leiðandi sveitarfélög hvort á sínu félagsþjónustusvæði og veiti öðrum sveitarfélögum á svæðinu viðeigandi þjónustu við fatlað fólk. Fljótsdalshérað, Vopnafjarðarhreppur, Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Djúpavogshreppur hafa um nokkurt árabil verið með samning sín á milli um aðra félagsþjónustu og sameiginlega félagsmálanefnd og því bætist þjónusta við fatlað fólk nú við það samstarf sem verið hefur. Fjarðabyggð mun hins vegar þjónusta Breiðdalshrepp. Bæði stærri sveitarfélögin búa yfir nægilega öflugri stjórnsýslu og fagfólki til að geta veitt öllum íbúum sveitarfélaganna þá þjónustu sem þarf.

Á Fljótsdalshéraði hófst eiginlegt starf við undirbúning yfirfærslu málefna til sveitarfélagsins snemm sumars. Að því verkefni hafa frá upphafi komið fulltrúar sveitarfélagsins og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi. Samvinnan á milli þessara aðila hefur verið einstaklega góð sem vonandi skilar sér í áframhaldandi góðri þjónustu við fatlað fólk. Strax í upphafi vinnunnar var lögð áhersla á að móta félagsþjónustu sveitarfélagsins frá grunni, í stað þess að færa málefni fatlaðra inn í þær hefðir og skipulag sem fyrir var. Þá hefur í allri vinnu undirbúningsaðila verið lögð áhersla á að þjónustan við fatlað fólk, sem og aðra sem þurfa á félagslegri þjónustu að halda, sé einstaklingsmiðuð og samþætt. En það þýðir m.a. að reynt er að tryggja að þjónustuúrræðin nái með heildstæðum hætti til þeirra málaflokka sem helst varða einstaklinginn, t.d. skólamálin.

Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga er samið um að allt starfsfólk og stjórnendur sem nú er í þjónustustueiningum og þjónustustofnunum á félagsþjónustusvæði Fljótsdalshéraðs, á vegum Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, færist til sveitarfélagsins og starfi þar hjá nýjum vinnuveitanda. Í samkomulaginu kemur fram að störf starfsmanna í yfirstjórn svæðisskrifstofa verði lögð niður en samið er um að sveitarfélög leitist við bjóða starfsmönnum í umsýslu og ráðgjöf störf. Hefur Fljótsdalshérað nú þegar samið við þær Guðbjörgu Gunnarsdóttur og Þorbjörgu Garðardóttur um að þær komi til starfa í stjórnsýslu félagsþjónustunnar og mun Guðbjörg verkstýra búsetumálum en Þorbjörg ráðgjöfinni. Þá mun Hlín Stefánsdóttir stýra barnaverndinni og Guðrún Helga Elvarsdóttir virknimálunum. Guðrún Frímannsdóttir er félagsmálastjóri félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs.

Einnig er gert ráð fyrir að félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs endurnýi samninga við Jónsver á Vopnafirði og Frú Láru á Seyðisfirði. Almennt má því segja að vonast er til að þeir sem hingað til hafa notið góðrar þjónustu frá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi finni sem minnst fyrir þeim breytingum sem verða við yfirfærslu málaflokksins til sveitarfélagsins, nema þá helst til góðs.

Undanfarnar vikur hafa þeir sem undirbúið hafa yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélagsins fundað með starfsfólki þjónustustofnana svæðisskrifstofunnar, viðkomandi starfsfólki sveitarfélaganna sem og notendum þjónustunnar og aðstandendum þeirra, í flestum þeim sveitarfélögum sem samstarf hafa um félagsþjónustuna.

Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga, www.samband.is , er búið að opna sérstakan þjónustuvef vegna málefna fatlaðs fólks. Notendur þjónustunnar, sem og aðrir, geta glöggvað sig á ýmsu sem varðar yfirfærsluna á þessum upplýsingavef, kjósi þeir það.