- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Magnús Magnússon, sem um áratuga skeið var skólastjóri Tónlistarskólans á Egilsstöðum, bauð til tónleika í Egilsstaðakirkju í gær, 1. maí, í tilefni áttræðisafmælis síns, 2. maí. Að tónleikunum stóð stórfjölskyldan hans. Magnús er elstur fjögurra systkina og bræður hans, ásamt niðjum systkinanna, fluttu fjölbreytta dagskrá. Þar lék meðal annars, Magnús, ásamt bræðrum sínum sexhent á píanó, og fjölskyldukór flutti íslensk lög. Að öðru leyti var tónlistin samsett af tónlist allt frá 11. öld fram að nútíma-rappi. Að loknum tónleikum var boðið til kaffisamsætis í Hlymsdölum.
Magnús fluttist með fjölskyldu sinni til Egilsstaða og hóf störf við nýstofnaðan Tónskóla Fljótsdalshéraðs, síðar Tónlistarskólann á Egilsstöðum haustið 1971. Hann starfaði óslitið sem tónlistarskólastjóri til ársins 2004 þegar hann valdi að fara á eftirlaun. Starfsemi tónlistarskólans hefur allt frá stofnun hans verið mikilvægur hlekkur í menningarstarfsemi samfélagins auk þess sem skólinn gegnir lykilhlutverki í menningaruppeldi á hverjum tíma. Meðal annars má minnast hlutverks Magnúsar og tengsla skólans við Óperustúdíó Austurlands en starfsemi þess vakti víðtæka athygli á blómlegu tónlistarstarfi á Héraði. Auk þess að gegna starfi skólastjóra í 33 ár kom Magnús sjálfur með margvíslegum hætti að tónlistarstarfi samfélagsins m.a. með organistastörfum, kórstjórn, svo sem með Tónkór Fljótsdalshéraðs, stjórn lúðrasveitar tónlistarskólans o.fl.
Fljótsdalshérað sendir Magnúsi bestu heillaóskir á þessum tímamótum og þakkar honum fyrir framlag hans til menningarstarfs fyrr og síðar.