Lýst eftir þátttakendum í Útsvar

Senn líður að því að hin sívinsæla spurningkeppni Útsvar hefjist í fimmta sinn. Þættirnir verða sem fyrr á dagskrá Sjónvarps í beinni útsendingu á föstudagskvöldum og er stefnt að því að fyrsti þátturinn fari í loftið þann 2. september næstkomandi.

Fljótsdalshérað hefur tilkynnt RÚV um þátttöku sína en eins og sjá má verður að hafa hraðar hendur við að velja í liðið og verður það að öllum líkindum vandasamt verk.

Ákveðið hefur verið að leita til íbúa um hugmyndir og tillögur um liðsmenn. Eru íbúar hvattir til að senda tillögur sínar á netfangið egilsstadir@egilsstadir.is fyrir miðvikudaginn 17. ágúst. Sérlega samansett nefnd hátt settra embættismanna innan bæjarkerfisins mun fara yfir tillögurnar og taka endanlega ákvörðun um liðsskipan sem verður að liggja fyrir í næstu viku.