Loftfimleika leikhús, námskeið og sýning

Írski loftfimleikahópurinn FIDGET FEET í samstarfi við franska danshópinn Drapés Aériens bjóða upp á námskeið í "loftfimleika-leikhúsi" í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum frá 4. - 17. október 2010. Annars vegar er um að ræða námskeið fyrir fullorðna, dagana 4. - 8. október, t.d. leikara, dansara og alla þá sem áhuga hafa á nýstárlegu leikhúsi. Hins vegar er boðið upp á námskeið fyrir börn og unglinga á aldrinum 8 - 15 ára, dagana 11. - 12. október og hentar það t.d. vel fyrir krakka í fimleikum eða hverja sem er.

Þann 15. október kl. 20.00 munu listamennirnir sýna glæsilegt og mjög óvenjulegt sviðsverk sitt MADAM SILK í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum. Miðaverð er 2.500 kr.

Þá verður haldin vinnustofa fyrir tónlistarfólk þar sem blandað verður saman hip hop, rappi og alls kyns tónlist. Jym Darling tónlistar- og víeólistamaður er leiðbeinandi á vinnustofunni, en Jym kemur frá Írlandi og vakti athygli á 700IS í vetur fyrir áhugaverð vídeóverk. Tónlistarfólki á öllum aldri er bent á að hafa samband við Ingunni á netfangið mmf@egilsstadir.is  fyrir nánari upplýsingar.

FIDGET FEET er einn virtasti "aerial theatre" danshópur Evrópu og mjög eftirsóttur í kennslu og sýningar. Hópurinn kemur til Íslands í boði Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs - miðstöðvar sviðslista á Austurlandi. Allar nánari upplýsingar um námskeiðin má fá hjá Ingunni, mmf@egilsstadir.is  eða í síma 899 5715 og skráning fer einnig fram hjá henni.