Ljósmyndaverkefni heldur áfram á Héraðsskjalasafni

Í frétt á vef Héraðsskjalasafns Austfirðinga kemur fram að fé fékkst til að halda áfram með ljósmyndaverkefni það sem hófst í ársbyrjun 2011. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti að veita fjármuni til verkefnisins og Fljótsdalshérað leggur til fé á móti. Þetta skapar tvö stöðugildi á safninu og hafa starfsmenn sem störfuðu að verkninu í fyrra verið endurráðnir. Árið 2011 voru skannaðar um 32.000 myndir og 17.000 myndir voru fullskráðar.

1.415 manns heimsóttu safnið á síðasta ári og um það bil 350 í viðbót mættu á viðburði á vegum safnsins svo sem Bókavöku og sýningarferðir safnisins, en farið var með ljósmyndasýningar liðið haust á Djúpavog, Seyðisfjörð, Fáskrúðsfjörð og Vopnafjörð.

Safnið fékk í vikunni styrk frá Menningarráði Austurlands til að fara víðar um Austurland með ljósmyndasýningar á árinu.

Myndin er tekin af vef Ljósmyndasafnsins.