Ljósleiðaralagning í dreifbýli

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað hefur ákveðið að unnið verði að umsókn um styrk til Fjarskiptasjóðs til ljósleiðaralagningar í dreifbýli. Tveir áfangar verkefnisins eru áformaðir á árinu 2017 með lagningu ljósleiðara frá Fellabæ og inn að heimreiðinni að Hreiðarsstöðum. Einnig er áformað að fara með ljósleiðara frá Lagarfossvirkjun og að bænum Ekru í Hjaltastaðaþinghá. Áformað er að vinna bæði þessi verkefni í samstarfi við Rarik, en fyrirtækið hyggur á lagningu jarðstrengs á umræddum svæðum. Er umsóknin hluti af verkefninu Ísland ljóstengt sem ríkisvaldið hratt af stað á árinu 2016.

Með auglýsingunni er verið að upplýsa um þessi áform en verkefnið er háð styrkveitingum, fjölda notenda á umræddum svæðum sem óska tenginga sem og tímasetningu jarðlagnavinnu samstarfsaðila. Þegar niðurstaða styrkveitinga og samlegðaráhrifa liggja fyrir verður endanleg ákvörðun um framkvæmd tekin. 

Samkvæmt skilmálum Fjarskiptasjóðs eru skilyrði fyrir styrkveitingu m.a. þau að í húsnæði hafi íbúi verið skráður með lögheimili 1. des. 2016 og að um sé að ræða heilsársbúsetu eða að fyrirtæki séu með heilsársstarfsemi í húsnæði. Það sem ekki er styrkhæft eru m.a. sumarbústaðir og aðrar fasteignir þar sem ekki er heilsársbúseta.

Auglýst er eftir áhuga aðila að tengja húsnæði sem ekki telst styrkhæft ljósleiðarakerfi. Gefst kostur á tengingu á kostnaðarverði.  Jafnframt er þess óskað að eigendur styrkhæfra húsa á ofangreindum svæðum hafi samband og staðfesti þátttöku sína í verkefninu.

Svör um áhuga á að tengjast væri gott að fá send sem fyrst til Fljótsdalshéraðs Lyngási 12 700 Egilsstaðir eða á netfangið egilsstadir@egilsstadir.is. Frekari upplýsingar um verkefnið er hægt að fá á bæjarskrifstofunni í síma 4700700.

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs